Fjöldagöngu í Brussel sem átti að fara fram á morgun hefur verið frestað vegna öryggisráðstafana. „March against Fear“ eða „Ganga gegn ótta“ átti að fara af stað frá Place de La Bourse torginu á morgun klukkan 14 að staðartíma en þúsundir hafa minnst fórnarlamba hryðjuverkaárásanna í borginni á torginu.
Skipuleggjendur hafa nú aflýst göngunni eftir að yfirvöld óskuðu eftir því. Fyrr í dag sagði borgarstjóri Brussel að lögregla í borginni þyrfti að nýta allan sinn kraft í það að rannsaka árásirnar og að hún hefði ekki mannskap til þess að sinna fjöldagöngu einnig.
Innanríkisráðherrann Jan Jambon sagðist skilja tilfinningar borgaranna og að þeir vildu tjá þær. „En við erum um allt land á öryggisstigi þrjú,“ útskýrði ráðherrann. „Það eru mikilvægar rannsóknir í gangi og fyrir þær þurfum við mikið lögregluafl og það er okkar helsta forgangsatriði.“
Nokkrir hafa verið handteknir í Belgíu í tengslum við árásirnar á þriðjudaginn þar sem 31 lét lífið. Í gær var maður undir nafninu Faycal Cheffou ákærður fyrir aðild sína að árásinni.
Gangan mun vera haldin eftir nokkrar vikur að sögn yfirvalda.