Skotinn í lærið á sporvagnastöð

Lögreglumenn á vakt í Meiser sem er innan Schaarbeek hverfisins
Lögreglumenn á vakt í Meiser sem er innan Schaarbeek hverfisins AFP

Einn þeirra sem hafa verið handteknir í Brussel undanfarna daga var skotinn í lærið á sporvagnastöð í Schaerbeek hverfinu um miðjan dag í gær. Þrátt fyrir að Frakklandsforseti haldi því fram að hryðjuverkahópnum hafi verið útrýmt þá er tveggja árásarmanna hið minnsta enn leitað. Annar þeirra flúði af flugvellinum í Brussel eftir að sprengja hans sprakk ekki og hinn var á lestarstöðinni þar sem hin árásin var gerð. Mikill viðbúnaður er hjá lögreglu í Belgíu í dag og er tvímenninganna ákaft leitað.

Bakpoki mannsins skoðaður af lögreglumanni
Bakpoki mannsins skoðaður af lögreglumanni AFP

François Hollande, forseti Frakklands, sagði í gær að með herferð undanfarinna daga gegn hryðjuverkahópnum sem stóð á bak við árásirnar í París í nóvember og Brussel á þriðjudag hafi hópnum verið eytt. 

Hollande segir að þrátt fyrir að hópnum hafi verið eytt eða það styttist í að því ætlunarverki ljúki sé ljóst að hættan sé áfram fyrir hendi og hún sé mikil.

 En ekki eru allir Belgar á þeiri skoðun og hefur reiðin smátt og smátt tekið völdin meðal fólks í stað sorgar vegna þeirra sem létust eða særðust í árásunum. Fólk á erfitt með að skilja hvernig stjórnvöld hafi getað sýnt jafn mikið kæruleysi og virðist vera og hundsað viðvaranir frá öðrum ríkjum. 

Ríkisstjórnin hefur fengið hressilega að heyra það frá fjölmiðlum og almenningi en lykilráðherrar í ríkisstjórninni halda því hins vegar fram að allt hafi verið gert til þess að koma í veg fyrir árásir í landinu. 31 lést og 300 særðust í hryðjuverkunum 22. mars sl.

“Árásir, tugir látnir, hundruð særð, tár, áhlaup, kreppa í stjórnmálum, umsátur um höfuðborgina og menn enn á flótta á sama tíma og Salah Abdeslam segir ekki orð í fangelsi, skrifar Christophe Berti í ritstjórnarpistli á forsíðu Le Soir í dag. Hann segir að þetta sé martröðin óendanlega fyrir ríki sem hefur verið snúið á hvolf.

Maðurinn var handtekinn í Schaarbeek hverfinu í gær
Maðurinn var handtekinn í Schaarbeek hverfinu í gær AFP

Ríkisstjórn Belgíu hefur viðurkennt mistök og tveir ráðherrar hafa boðist til þess að segja af sér eftir að forseti Tyrklands greindi frá því að Tyrkir hefðu látið vita í fyrra að Ibrahim El Bakraoui, sá sem sprengdi sig upp á flugvellinum, hafi verið handtekin þar í landi. Viðvaranir Tyrkja voru hundsaðar af belgískum yfirvöldum. 

Ibrahim og bróðir hans Khalid, sem framdi sjálfsvíg í lestarvagni, voru einnig á hryðjuverkalista bandarískra yfirvalda.

Ibrahim var jafnvel á listanum áður en árásirnar voru framdar í París í nóvember og Khalid var settur á listann skömmu síðar. Saksóknarar hafa staðfest að alþjóðleg handtökuskipun hafi verið gefin út á hendur Khalid eftir árásina í París.

AFP



Þrír belgískir ráðherrar, dómsmála, innanríkis, og utanríkis, lýstu því fyrir þingnefnd í gær hvernig  Ibrahim El Bakraoui hafi tekist að forðast belgísku lögregluna. Skilaboðin frá Tyrkjum hafi verið óljós en að belgískir lögreglumenn í sendiráði Belga í Tyrklandi hafi sofið á verðinum.

Franska lögreglan segist hafa komið í veg fyrir hryðjuverkaárás í Frakklandi með handtöku Reda Kriket, 34 ára, Frakka sem var dæmdur í tíu ára fangelsi í Belgíu síðasta sumar í tengslum við hryðjuverkahóp í landinu. Sprengiefni fannst á heimili Kriket þegar han var handtekinn. Í kjölfarið voru þrír handteknir í Belgíu.

 Alltaf eru að koma í ljós meiri og meiri tengsl milli árásanna í París og Brussel, þar má nefna sprengjusérfræðinginn Najim Laachraoui, sem sprengdi sig upp á flugvellinum í Brussel á þriðjudag en talið er fullvíst að hann hafi útbúið sprengjurnar sem notaðar voru í París í nóvember.

AFP

Khalid El Bakraoui leigði íbúðir í Brussel þar sem Salah Abdeslam hélt sig þá fjóra mánuði sem hann var á flótta en hann var handtekinn 18. mars sl. Hann verður framseldur til Frakklands þar sem hann verður sóttur til saka fyrir hryðjuverkin í París í nóvember. Abdeslam hefur ekki viljað tjá sig og nýtt sér rétt sinn til þagnar allt frá því að hann tjáði sig lítillega daginn eftir handtökuna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert