Sýna kjarnorkuárás á Washington

Stjórnvöld í Norður-Kóreu hafa gefið út myndband, titlað „Síðasta tækifærið,“ þar sem m.a. er hótað kjarnorkuárás á Bandaríkin hreyfi þeir sig svo mikið sem þumlung gegn N-Kóreumönnum.

Umfangsmiklar heræfingar Bandaríkjanna og S-Kóreu standa nú yfir og hafa N-Kóreumenn hert róðurinn undanfarið í áróðri sínum gegn þeim. Æfingarnar eru þær umfangsmestu hingað til og eru hugsaðar sem svar við ítrekuðum ögrunum N-Kóreumanna, s.s. tilraunum með eldflaugar og kjarnorkusprengjur.

Í myndbandinu er farið yfir átakasögu landanna og herstyrkur N-Kóreumanna hafður í sviðsljósinu. Þá er hótað miskunnarlausum hernaðaraðgerðum gegn Suður-Kóreubúum fyrir meintan óhróður þeirra í garð Kim Jong-Un. Stórskotalið hers norðanmanna æfði nýverið árás á heimili forseta S-Kóreu, Park Geun-Hye, og gaf í kjölfarið út yfirlýsingu þar sem Park er sögð makalaus svikari og krafin um afsökunarbeiðni.

Park hefur reyndar verið vinsælt skotmark áróðursmeistara norðanmanna nýverið en hún er ýmist sögð minna á hund eða svín og lýst sem skítugri gamalli konu sem veiti bandamönnum S-Kóreu kynlífsgreiða.

Undir lokin er svo sýnt tölvugert myndskeið þar sem kjarnorkusprengju er skotið með eldflaug úr kafbáti á Washington D.C..

Viðlíka áróður hefur áður komið frá stjórnvöldum í Pyongyang en myndbandið nú undirstrikar viðleitni N-Kóreumanna við að komast yfir tækni til þess að skjóta kjarnaoddum úr kafbátum. Slíkt myndi til muna auka getu þeirra til þess að ógna Bandaríkjunum og öðrum fjarlægari ríkjum og torvelda varnir gegn slíkum árásum.

Myndbandið má sjá hér að neðan.

Skjáskot
Hugsanlega hafa áróðursmeistarar N-Kóreu verið undir áhrifum frá kvikmyndum á …
Hugsanlega hafa áróðursmeistarar N-Kóreu verið undir áhrifum frá kvikmyndum á borð við Independence Day. Skjáskot
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert