Umdeild kvikmynd um tengsl bólusetninga gegn mislingum, hettusótt og rauðum hundum (MMR) við einhverfu verður ekki sýnd á kvikmyndahátíðinni í Tribeca í New York í næsta mánuði líkt og til stóð. Þetta er ákvörðun stofnanda hátíðarinnar, Robert De Niro.
Kvikmyndin Vaxxed er framleidd af Andrew Wakefield sem er ákafur andstæðingur bólusetninga og í myndinni eru sögð tengsl á milli MMR bólusetningar og einhverfu en það hefur verið mjög dregið í efa af læknum og vísindamönnum.
Robert De Niro staðfesti á föstudag þessa ákvörðun aðstandenda Tribeca kvikmyndahátíðarinnar og hann segir að þau hafi ákveðnar efasemdir um það sem komi fram í myndinniæ
Leikarinn á sjálfur barn með einhverfu og hann segir að hann hafi vonast til þess að myndin myndi gefa tækifæri á að ræða málefnið. En eftir að hafa horft á myndina með skipuleggjendum hátíðarinnar og vísindamönnum segir De Niro að þau hafi ekki trú á að myndin hafi neitt fram að færa varðandi frekari umræður um þetta málefni.
Wakefield, bæði skrifaði handritið og leikstýrði Vaxxed en hann segir hana heimildarmynd byggða á uppljóstrunum.
Wakefield og framleiðandi Vaxxed, Del Bigtree, sendu frá sér tilkynningu eftir að De Niro hafði greint þeim frá ákvörðun Tribeca að enn einu sinni sé sýnt fram á vald stórfyrirtækja þar sem brotið er á málfrelsinu, listum og sannleikanum.
Wakefield, sem er breskur læknir en var sviptur lækningaleyfi árið 2010, hélt því fram í grein í breska læknatímaritinu Lancet árið 1998 að samband væri á milli einhverfu og bólusetningar gegn mislingum, rauðum hundum og hettusótt. Þetta skaut foreldrum víða um heim skelk í bringu og verulega dró úr bólusetningunum með þeim afleiðingum að mislingar, sem áður höfðu vart sést, blossuðu upp að nýju og ollu dauða eða miklum skaða hjá mörgum börnum.
Seinna kom í ljós að greinin byggðist á fölsuðum rannsóknarniðurstöðum og aðrar rannsóknir benda til þess að ekkert samband sé á milli slíkrar bólusetningar og einhverfu. Ennfremur kom í ljós að Wakefield var á mála hjá lögmanni sem hugðist lögsækja framleiðendur bóluefnanna fyrir hönd nokkurra fjölskyldna vegna gruns um þau hefðu valdið einhverfu hjá börnum þeirra.
Greinin var síðar fjarlægð úr gagnagruni Lancet, samkvæmt fréttum BBC og Guardian