Egypskri farþegaþotu rænt

Flugræningi hefur tekið völdin um borð í egypskri farþegaþotu og beint henni til Kýpur, þar sem þotunni hefur verið lent á Larnaca flugvellinum á suðurströnd eyjarinnar. Þetta segir í tilkynningu frá kýpversku lögreglunni.

Uppfært: Maðurinn hefur verið handtekinn.

Umfjöllun mbl.is: „Hann hafði enga byssu eða neitt“

Flugræninginn hafði samband við flugstjórnarturninn klukkan hálf níu í morgun að staðartíma, eða klukkan hálf sex að íslenskum tíma. Vélinni var gefið leyfi til að lenda tuttugu mínútum síðar.

Engar kröfur hafa verið gerðar að sinni en neyðarlið hefur verið sent á flugvöllinn og hefur honum verið lokað af yfirvöldum. Öðrum flugferðum hefur verið beint annað.

Um borð í vélinni er sagður vera 81 farþegi og sjö meðlimir áhafnar, samkvæmt upplýsingum frá flugvellinum í Kaíró í Egyptalandi.

Farþegaþotan, sem mun vera af gerðinni Airbus A320 og er í umsjá flugfélagsins Egyptair, var á leið frá egypsku borginni Alexandríu til höfuðborgarinnar Kaíró þegar stefnu hennar var breytt og haldið var til Kýpur.

Uppfært 7.01:

Í eftirfarandi tísti er sagt að meðfylgjandi mynd sé af þotunni þar sem hún stendur á Larnaca-flugvellinum.

Uppfært 7.10:

Greint hefur verið frá því að flugræninginn, sem nú er talinn vera einn að verki, hafi hótað því að sprengja sprengjubelti sem hann segist klæddur. Þá hafa farþegar sést ganga niður úr vélinni og fréttastofa AP segir hann hafa leyft konum og börnum að ganga frá borði.

Flugvöllurinn í Larnaca hefur áður þurft að vera vettvangur gíslataka. Nokkrum rændum vélum var þannig beint til vallarins á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.

Uppfært 7.21:

Hér má sjá á korti hvar vélin er stödd á flugvellinum en enn er kveikt á staðsetningarsendi hennar. 

Fréttamaður Reuters segir að um borð í vélinni séu tíu Bandaríkjamenn og átta Bretar, og að egypskum farþegum hafi verið leyft að fara.

Þá segir fréttamaður breska blaðsins Guardian að flugræninginn hafi krafist þess að lögregla yfirgæfi flugvöllinn.

Uppfært 7.30:

Í tilkynningu frá flugfélaginu segir að í kjölfar samningaviðræðna hafi öllum farþegum vélarinnar verið sleppt, utan áhafnarmeðlima og fjögurra útlendinga

 Uppfært 7.55:

Vert er að minnast á það að heimildir herma að allir þeir, sem sleppt var, hafi verið egypskir ríkisborgarar og að aðeins fjórir útlenskir farþegar séu eftir í vélinni, auk áhafnar og flugræningjans. Ef rétt reynist þá eru fyrri fregnir, um að um borð hafi verið tíu Bandaríkjamenn og átta Bretar, rangar.

Uppfært 8.07:

Fréttamaður Reuters segir nú að flugræninginn sé að leita hælis í Kýpur. Að minnsta kosti líti ránið ekki út fyrir að vera af hálfu Ríkis íslams.

Uppfært 8.38:

Ljóst virðist orðið að ránið sé ekki neins konar hryðjuverk, heldur virðast ástæður þess vera af persónulegum toga. Fréttaritari Guardian í Kýpur, Helena Smith, segir forseta landsins, Nikos Anastasiades, staðfesta þetta.

Þá segir fréttaritari blaðsins í Kaíró eftir embættismönnum í utanríkisráðuneyti Egyptalands að maðurinn sé að leita hælis í Kýpur þar sem fyrrverandi kona hans býr.

„Hann er ekki hryðjuverkamaður, hann er hálfviti,“ segja þeir. „Hryðjuverkamenn eru klikkaðir en þeir eru ekki heimskir. Þessi er það.“

Lögregla staðfestir að fyrrverandi kona ræningjans sé nú á leið á flugvöllinn ásamt lögreglu til að taka þátt í samningaviðræðunum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert