Friðargæsluliðar sakaðir um kynferðisbrot

Fjöldi ásakana um kynferðisbrot friðargæsluliða í Mið-Afríkulýðveldinu hafa borist Sameinuðu …
Fjöldi ásakana um kynferðisbrot friðargæsluliða í Mið-Afríkulýðveldinu hafa borist Sameinuðu þjóðunum sem eru sökuð um að bregðast seint við. AFP

Fulltrúar á vegum Sameinuðu þjóðanna rannsaka nú ásakanir um alvarleg kynferðisbrot friðargæsluliða í Mið-Afríkulýðveldinu, að því er greint er frá á fréttavef BBC.

Á síðasta ári bárust Sþ 69 ásakanir um kynferðislega misnotkun á börnum í landinu, auk annarra kynferðisbrota sem friðargæsluliðar tíu sendisveita eru sakaðir um.

Hjálparsamtökin Code Blue segist hafa komið þeim upplýsingum til Sameinuðu þjóðanna að einn friðargæsluliði hafi m.a. neytt fjórar stúlkur til kynferðislegra athafna með hundi.

Í upplýsingum frá Sameinuðu þjóðunum segir að verið sé að skoða fjölda og eðli þeirra brota sem sakað er um.

Það voru Code Blue samtökin, sem tilkynntu um misnotkunina, sem þau segja að hafi staðið yfir frá 2013.  

Fengu tæpa níu dollara að launum

Misnotkunin með hundinum á að hafa átt sér stað 2014 fyrir tilstilli yfirmanns franskra friðargæslusveitar. Stúlkurnar, sem síðar létust af óþekktum sjúkdómi, fengu greitt andvirði tæpra 9 dollara fyrir að taka þátt.  

Aðrar ásakanir snúa að sveitum friðargæsluliða frá Frakklandi, Gabon, Mið-Afríkulýðveldinu og Lýðveldinu Kongó.

Friðargæslusveitir voru sendar til Mið-Afríkulýðveldisins árið 2014 til að aðstoða við að koma á friði í landinu eftir að átök brutust út í kjölfar þess að forseta landsins var varpað af stóli.

Í tilkynningu sem Sameinuðu þjóðirnar sendu frá sér í gær, segir að ásakanirnar eigi við um starfsfólk Sþ, sem og friðargæsluliða annarra sveita. Verið sé að rannsaka ásakanirnar, auk þess sem hinum meintu fórnarlömbum hafi verið boðin ráðgjöf og læknisaðstoð.

Viðbrögð Sameinuðu þjóðanna gagnrýnd

Fyrr í mánuðinum mælti Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna með því að allar sveitir þar sem ásakanir um kynferðisbrot hafi komið upp, verði sendar heim.

Í ágúst á síðasta ári var Babacar Gaye, sendifulltrúi Sþ í Mið-Afríkulýðveldinu látinn taka pokann sinn vegna fjölda ásakana um kynferðisbrot friðargæsluliða.   

Sjálfstæð rannsóknarnefnd sagði viðbrögð Sþ við ásökunum verulega gölluð. Sakar nefndin yfirmenn Sþ um að misnota vald sitt með því að bregðast ekki við ásökunum um kynferðisbrot friðargæsluliða frá Frakklandi, Miðbaugs-Gíneu og Chad.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert