Yfir 100 þolendur hafa stigið fram í Mið-Afríkulýðveldinu og greint frá grófu kynferðisofbeldi, þar á meðal með dýrum, af höndum friðargæsluliða Sameinuðu þjóðanna og franskra hermanna.
Í yfirlýsingu talsmanns Sameinuðu þjóðanna kom fram að aðalritari þeirra, Ban Ki-moon væri í „í losti inn að beini“ vegna ásakananna sem komu fram eftir að hópur á vegum SÞ ferðaðist til landsins til að taka viðtöl við konur og stúlkur.
„Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að fjöldi hermanna sem sendir voru til að vernda fólk beitti sér þess í stað með myrkum hjörtum,“ sagði talsmaður SÞ, Stephane Dujarric.
Fulltrúar SÞ hafa hingað til tekið viðtöl við 108 fórnarlömb og mun mikill meirihluti þeirra stúlkur undir lögaldri sem var nauðgað, beittar kynferðislegu ofbeldi eða notfærðar af erlendum hermönnum. M.a. hafa fulltrúarnir heyrt frásagnir af því að franskir hermenn hafi þvingað stúlkur til að eiga kynferðislegt samneyti við dýr fyrir peninga.
Greinir AFP frá heimildum þess efnis að þrjár stúlkur hafi verið bundnar og afklæddar af herforingja og neyddar til að eiga kynmök við hund.
Dujarric lagði áherslu á að ekki hefði verið „gengið úr skugga um“ staðreyndirnar í máli sem gæti verið ein alvarlegasta hrina ásakana sem dunið hefur á friðargæsluverkefninu í landinu til þessa.
Fulltrúi Frakklands í Sameinuðu þjóðunum sögðu ásakanirnar ógeðslegar. Francois Delattre sagði frönsk yfirvöld tilbúin að upplýsa málin að fullu og að þau myndu grípa til aðgerða öðrum til varnaðar reyndust ásakanirnar réttar.
Yfir 12.600 erlendir lögreglu- og hermenn taka þátt í friðargæsluverkefninu í Mið-Afríkulýðveldinu auk 500 óbreittra borgara. SÞ tóku við verkefninu frá liðsafla á vegum Afríkubandalagsins árið 2014. Í ágúst var yfirmaður verkefnisins rekinn eftir að ásakanirnar byrjuðu að koma fram en þeim hefur haldið áfram að fjölga. Fyrr í vikunni tilkynnti SÞ um tvö ný kynferðisbrot hermanna frá Búrúndí og Marokkó, þar á meðal eitt gegn 14 ára stúlku.
Yfirmaður friðargæslustarfs SÞ, Herve Ladsous sagðist í viðtali við AFP leggja til tvær hugmyndir til að leysa vandann,
„Í fyrsta lagi þurfa lönd sem leggja til hermenn að samþykkja að halda herrétt á þeim stað sem hermenn þeirra eru. Í öðru lagi, ætti að taka DNA sýni þegar „bláir hjálmar“ eru fengnir til starfa.“