Barack Obama Bandaríkjaforseti sagði í dag að ríki heims þyrftu að vinna saman að því að koma í veg fyrir að „vitfirringar“ innan raða samtaka á borð við Ríki íslam kæmust yfir kjarnorkusprengju eða önnur geislavirk vopn.
Ummælin lét Obama falla á ráðstefnu um kjarnorkuöryggi í Washington. Hann sagði að eftirlit Ríkis íslam með belgískum kjarnorkuvísindamanni og notkun samtakanna á efna- og lífefnavopnum væru til marks um fyrirætlun þeirra.
„Vegna samstilltra aðgerða okkar hefur engum hryðjuverkasamtökum tekist að komast yfir kjarnorkuvopn eða óhreina sprengju gerða úr geislavirkum efnum,“ sagði Obama.
„Það leikur enginn vafi á því að ef þessir vitfirringar koma höndum yfir kjarnorkuvopn eða kjarnorkuefni munu þeir næstum örugglega nota það til að drepa eins margt saklaust fólk og þeir mögulega geta.“
Ráðstefnan er haldin á hæla hryðjuverkaárásanna í París og Brussel, sem hafa m.a. leitt í ljós þau takmörk sem öryggisyfirvöldum eru háð. Komið hefur í ljós að menn sem tengdust árásunum höfðu hátt settan vísindamann við belgíska kjarnorkustöð undir eftirliti.
Obama varaði m.a. við því að sprengja á stærð við epli gæti haft ófyrirsjáanlegar afleiðingar í för með sér.
„Minnsta magn plútóníums gæti valdið dauða og meiðslum hundruð þúsunda,“ sagði forsetinn. Hann sagði að afleiðingarnar yrðu harmleikur sem myndi hafa áhrif í marga áratugi.
„Það myndi breyta heiminum.“