Forsetaframbjóðandinn Donald Trump spáir „gríðarmikilli niðursveiflu“ í bandarísku efnahagslífi. Hann segir að mikið atvinnuleysi og ofmat á hlutabréfamörkuðum hafi undirbúið jarðveginn fyrir annað efnahagshrun.
„Ég held að við sitjum nú á efnahagsbólu. Fjárhagslegri bólu,“ sagði hann í viðtali við Washington Post í gærkvöldi.
Trump hefur ekki átt sjö dagana sæla upp á síðkastið og síðasta vika reyndist kosningabaráttunni erfið. Staðhæfing hans um að efnahagslífið standi á brauðfótum gæti orðið til þess að beina umræðunni frá feilsporum síðustu viku, þegar hann ræddi m.a. um fóstureyðingar og hlaut harða gagnrýni fyrir. Á þriðjudag fara fram forkosningar í Wisconsin.
Trump segir að raunverulegt atvinnuleysi sé mun meira en fram kemur í opinberum tölum frá vinnumálastofnun Bandaríkjanna. Þar er það sagt vera 5%. Hann segir að atvinnuleysi sé í raun nær 20%. Hann segir að opinberar atvinnuleysistölur séu til þess gerða „að láta pólitíkusa, og sér í lagi forseta líta vel út.“
Trump segir að nú sé „hræðilegur“ tími til að fjárfesta á hlutabréfamarkaði.