Kalla Ísland bananalýðveldi

Ísland er kallað bananalýðveldi í dálki, sem birtist í blaðinu …
Ísland er kallað bananalýðveldi í dálki, sem birtist í blaðinu Süddeutsche Zeitung. Golli / Kjartan Þorbjörnsson

Ísland er kallað bananalýðveldi í dálki, sem birtist í blaðinu Süddeutsche Zeitung á þriðjudag.

„Sigmundur Davíð Gunnlaugsson beið þar til skaðinn gat ekki orðinn meiri,“ skrifar Silke Bigalke, blaðamaður Süddeutsche Zeitung, sem hefur skrifað fréttir af íslenskum stjórnmálum í blaðið.

„Ekki fyrr en eftir langt, allt of langt hik lýsti forsætisráðherra Íslands sig tilbúinn til að stíga til hliðar. Það kemur of seint og er of lítið.“

Bigalke segir að blaðamenn hafi beðið Sigmund Davíð að bregðast við ásökununum fyrir birtingu og hann hafi því vitað á undan öllum öðrum Íslendingum að blaðamenn vissu af aflandsfyrirtæki hans.

„Honum var ljóst hvaða afhjúpanir voru á leiðinni,“ skrifar Bigalke. „Hann hefði getað gengist við því fyrr að hann hefði komið fyrir peningum í skattaparadís. Ef til vill hefðu Íslendingar fyrirgefið honum hefði hann lagt staðreyndirnar á borðið – staðreyndir sem hann vissi að myndu koma fram. Í stað þess að nota tímann til að takmarka tjónið kynti hann undir reiðinni.“

 Bigalke metur það svo að það sé ekki tilvist aflandsfyrirtækisins, sem reiti marga Íslendinga til reiði, heldur að forsætisráðherra þeirra hafi haldið henni leyndri.

„Þegar hneykslið var komið fram hélt hann áfram eins og fram að því: Hann vék sér undan, sneri út úr, hótaði. Nú síðast hótaði hann meira að segja með nýjum kosningum. Sigmundi Davíð hefði betur stigið til hliðar áður en reiðir Íslendingar hentu banönum í þinghúsið og sýndu þannig hvaða stöðu hið stolta Ísland hefur nú í heiminum,“ skrifar Bigalke.

Í blaðinu bar dálkur hennar fyrirsögnina „Bananalýðveldið Ísland“, en á netinu „Forsætisráðherra Íslands glataði tækifærinu til að segja af sér með reisn“.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert