Hollendingar hafa hafnað viðskiptasamningi milli Úkraínu og Evrópusambandsins sem hafði þegar verið staðfestur af 27 aðildarríkjum sambandsins.
Kosið var í gær og kusu 61,1% gegn samningnum á meðan 38,1% kusu með honum. 0,8% skiluðu auðu. Kjörsókn var 32,2%, rétt yfir nauðsynlegri kjörsókn svo að kosningin sé gild, sem er 30%.
Úrslit kosninganna komu í ljós um miðnætti en því hafði verið spáð um klukkan 9 um kvöldið að svarið yrði nei.
Um 120 manns komu saman á kaffihúsi í Amsterdam til þess að fylgjast með talningunni. Þegar að niðurstaðan var kynnt fögnuðu áhorfendur og mátti heyra lófaklapp.
„Þetta verður ekki síðasta þjóðaratkvæðagreiðslan. Þetta er sú fyrsta af mörgum,“ sagði dálkahöfundurinn Jort Kelder sem hélt ræðu á kaffihúsinu. Þar lofaði hann „hugrekki“ þeirra sem börðust fyrir því að samningurinn yrði ekki samþykktur, sérstaklega Thierry Baudet, stofnanda hópsins Forum voor Democratie sem tók þátt í því að útvega undirskriftir til þess að atkvæðagreiðslan gæti farið fram.
Baudet er þekktur í heimalandinu fyrir skrif sín en hann var eitt helsta andlit baráttunnar gegn samningnum og var samkoman á kaffihúsinu skipulögð af stuðningsmönnum hans.
„Við verðum að passa það að Evrópusambandið verði ekki sambandsríki,“ sagði Martijn Doerr sem ræddi við blaðamann euobserver í gærkvöldi en hann kaus gegn aðild Úkraínu. Bætti hann við að Evrópusambandið væri líklega orðið nógu stórt og að hvorki Úkraína né Evrópusambandið væri tilbúið fyrir nánara samstarf.
Baudet sagðist á heimasíðu sinni búast nú við því að Evrópusambandið búi nú til nýjan samning og að Rússar taki þátt í þeim viðræðum.
„Við höfum sýnt að fólkið vill taka þátt,“ skrifaði Baudet á heimasíðuna sína. „Núna vill ég að við getum kosið um landamæri Evrópu, Evruna og viðskiptasamband Evrópu og Bandaríkjanna, TTIP.“
Á öðrum stað í borginni höfðum stuðningsmenn samningsins safnast saman. Eins og búast mátti við var stemningin þar ekki eins góð. Ein kona fagnaði þegar hún sá að 53,1% íbúa borgarinnar Groningen hefðu kosið með aðildinni.
Michiel van Hulten, sem hefur barist fyrir samþykkt gagnrýndi kosningalög í Hollandi, sérstaklega þegar það kemur að því að 30% kjörsókn sé nauðsynleg til þess að kosningin sé gild. Sagði hann að margir stuðningsmenn samningsins hefðu sleppt því að fara á kjörstað og freistað þess að kjörsóknin yrði undir 30%.
Forsætisráðherra Holllands, Mark Rutte, sagði í gærkvöldi að nú myndi ríkisstjórn hans fara yfir úrslit kosninganna og ákveða hvað verði gert. Formlega er kosningin ekki bindandi en pólitískt séð mun Rutte ekki hafa annan kost en að bregðast við henni á einhvern hátt.
Þá verður einnig áhugavert að sjá viðbrögðin við kosningunni í stjórn Evrópusambandsins. Forseti framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins, Jean-Claude Juncker, hafði varað Hollendinga við því að kjósa gegn samningnum því það gæti komið af stað „krísu í álfunni“.