Yfirgefa flokkinn ef Trump vinnur

Kosningaauglýsing Donalds Trump í Virginíu.
Kosningaauglýsing Donalds Trump í Virginíu. AFP

Framboð Donalds Trump til að verða forsetaframbjóðandi repúblikana hefur átt undir högg að sækja undanfarnar vikur. Til að bæta gráu ofan á svart bendir ný skoðanakönnun til þess að nærri því þriðjungur kjósenda repúblikana í Virginíu myndi snúa baki við flokknum í kosningunum ef Trump verður frambjóðandi hans.

Síðasta vika er talin sú versta fyrir auðkýfinginn frá því að hann bauð sig fyrst fram í forvali repúblikana. Ummæli hans um að refsa ætti konum sem fara í fóstureyðingu vakti reiði bæði á meðal íhaldsmanna og frjálslyndra og þurfti Trump að bakka með þau á endanum. Á þriðjudag hafði Ted Cruz svo sigur í forvalinu í Wisconsin og virðast möguleikar Trump á að tryggja sér meirihluta kjörmanna fyrir flokksþing repúblikana í júlí fara þverrandi.

Skoðanakönnun Christopher Newport-háskóla á meðal kjósenda repúblikana í Virginíu bendir til þess að nærri því þriðjungur þeirra myndi kjósa Hillary Clinton, frambjóðanda þriðja flokks eða sitja heima í forsetakosningunum næsta haust. Það gæti gert út um möguleika Trump á að sigra Clinton í ríkinu ef kosið væri á milli þeirra. Clinton hefur níu prósentustiga forskot á Trump samkvæmt könnuninni.

Demókratar ólíklegri til að „svíkja lit“

Á sama tíma bendir könnunin til þess að kjósendur demókrata séu mun líklegri til að halda tryggð við flokkinn óháð því hvort að Clinton eða Bernie Sanders hljóti útnefninguna sem forsetaframbjóðandi hans.

Af kjósendum repúblikana segjast 13% tilbúin að kjósa Clinton ef Trump verður ofan á í forvali repúblikana. Önnur 13% segja tilbúin að greiða frambjóðanda annars flokks en demókrata eða repúblikana atkvæði sitt og 3% segja að þau myndu ekki kjósa.

Trump fór með sigur af hólmi í forvali repúblikana í Virginíu en það fór fram 1. mars. Sigurinn var þó tiltölulega tæpur en hann hlaut 34,7% atkvæða gegn 31,9% Marco Rubio sem nú hefur helst úr lestinni.

Frétt Washington Post af skoðanakönnuninni í Virginíu

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert