Sjóræningar taka Ísland með beinu lýðræði

Birgitta Jónsdóttir pírati segir í viðtali við Berlingske Tidende að …
Birgitta Jónsdóttir pírati segir í viðtali við Berlingske Tidende að píratar séu meðvitaðir um hættuna á að valda kjósendum vonbrigðum. Kristinn Ingvarsson

„Sjóræningar (Píratar) taka Ísland með beinu lýðræði og Hróa hattar valdi,“ þetta er fyrirsögn viðtals við Birgittu Jónsdóttur þingmann Pírata, sem birt er á vef danska dagblaðsins Berlingske tidende í dag.

Blaðamaður byrjar á að segja að hérumbil helmingur Íslendinga vilja kjósa Pírata sem hafi fullkomlega snúið stjórnmálakerfinu á hvolf í kjölfar Panama hneykslisins.

„Hinn sögulegi gagnaleki frá Panama, hin svo nefndu Panama skjöl, hafa skekið heiminn allan. En hvergi hafa afleiðingar verið meiri en á Íslandi,“ segir í greininni.

Forsætisráðherrann, Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, hafi neyðst til að segja af sér í kjölfar stærstu mótmæla í sögu landsins eftir sér eftir að í ljós kom að eiginkona hans átti aflandsfélag á Tortola. Auk afsagnar forsætisráðherrans hafi verið tilkynnt að kjörtímabilið verði stytt og að gengið verði til kosninga í haust.

„Niðurstaða kosninganna kann að valda enn meira áfalli í íslenskum stjórnmálum en undanfarinn vika hefur gert. Útlit er fyrir að pírataflokkurinn, sem tilheyrir eiginlega frekar alþjóðlegri hreyfingu, fái hér um bil helming atkvæðanna og taki þar með við stjórnarráðinu.“

Meðvituð um hættuna á að valda kjósendum vonbrigðum  

Blaðamaður Berlingske ræðir við Birgittu sem lýsir stjórnmálaástandinu á Íslandi sem „mjög óöruggu og lituðu af vantrausti“.

„Ég var að sjá að 55% kjósenda bera mjög lítið traust til stjórnarinnar og að aðeins 14% bera traust til hennar. Við efumst um að fjármálaráðherrann sé í standi til að lægja öldur vegna Panama-hneykslisins sem hann á sjálfur aðild að. Svo kann líka að vera að fleiri í stjórninni eigi peninga falda sem við vitum ekki ennþá um,“ hefur blaðið eftir Birgittu, sem segir almenning vera farinn að átta sig á að stjórnmálamenn standi ekki endilega við loforðin sem þeir gefa. Píratar vilji hins vegar breyta valdastrúktúrnum með beinu lýðræði og auknum áhrifum kjósenda.  

Blaðamaður spyr hvort Birgitta óttist ekki að þær málamiðlanir sem Píratar kunna að þurfa að gangast inn sitji þeir í stjórn valdi kjósendum vonbrigðum.

„Við erum ótrúlega meðvituð um þessa hættu. Þess vegna er ég búinn að vera að vinna að bindandi samkomulagi við mögulega samstarfsflokka, þannig að við höfum skýrt samkomulag um nákvæmlega hvað við viljum eiga samstarf um. Það þýðir að allar málamiðlanir þurfa að vera uppi á borðinu fyrirfram. Þessir samningar sem eiga sér yfirleitt stað bak við luktar dyr eftir kosningar, þurfa að vera gerðir áðu en kosið er. Ég tel að það sé miklu heilbrigðara fyrirkomulag. Fólk er búið að fá nóg af að verða svekkt út í stjórnmálamenn sem svíkja loforð sín eftir að búið er að kjósa þá. En ég get ekki lofað fólki að það verði ekki fyrir vonbrigðum með okkur, því ég hef ekki hugmynd um hvernig hlutirnir eiga eftir að þróast. Ég get þó sagt að við munum gera okkar besta.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert