Hóta að selja allar bandarískar eignir

Barack Obama Bandaríkjaforseti og Abdullah, konungur Sádi-Arabíu.
Barack Obama Bandaríkjaforseti og Abdullah, konungur Sádi-Arabíu. Ljósmynd/Wikipedia

Sádi-Arabía hyggst selja bandarískar eignir sínar, sem metnar eru á hundruð milljarða dollara, verði frumvarp sem gerir það að verkum að ríki njóti ekki lengur friðhelgi bandarískra dómstóla vegna hryðjuverkaárása á bandarískri grund að lögum.

Samkvæmt heimildum New York Times innan úr stjórnsýslu Bandaríkjanna hefur stjórn Barack Obama Bandaríkjaforseta reynt að koma í veg fyrir að frumvarpið verði samþykkt og hótanir Sádi-Araba hafa skapað spennu milli löggjafans, þ.e. þingmanna, annars vegar og utanríkis- og varnarmálaráðuneyta Bandaríkjanna hins vegar.

Í heimsókn Adel al-Jubeir, utanríkisráðherra Sádi-Arabíu, til Bandaríkjanna í síðasta mánuði greindi hann bandarískum stjórnvöldum frá fyrirætlunum Sádi-Araba. Sagði al-Jubeir Sádi-Araba tilneydda til að selja allt að 750 milljarða dollara eignir sínar í Bandaríkjunum vegna hættu á að eignirnar yrðu frystar af bandarískum dómstólum.

Ríki njóta friðhelgi frá bandarískum dómstólum

Sádi-Arabar hafa alltaf neitað fyrir það að konungsríkið hafi haft eitthvað með árásirnar 11. september að gera, og að rannsóknarnefnd 9/11 hefði ekki fundið neitt sem bendir til þess að ríkisstjórn Sádi-Arabíu, stofnanir landsins eða hátt settir embættismenn í landinu hefðu fjármagnað árásirnar. Hins vegar hafa verið uppi getgátur um að lægra settir embættismenn Sádi-Arabíu hafi haft hlutverk við árásirnar, en niðurstaða nefndarinnar er ekki opinber.

Aðstandendur fórnarlamba hryðjuverkaárása 11. september hafa lengi reynt að láta meðlimi konungsfjölskylduna, fjármálastofnanir og góðgerðarsamtök í Sádi-Arabíu sæta ábyrgð vegna fjármögnunar árásanna. Það hefur ekki gengið eftir, að hluta til vegna laga frá 1976 sem kveða á um að ríki njóti friðhelgi frá ákærum fyrir bandarískum dómstólum.

Frumvarpinu er ætlað að koma í veg fyrir að ríki njóti friðhelgi í þeim tilfellum þar sem þau eru ábyrg fyrir hryðjuverkaárásum sem leiða til dauða bandarískra ríkisborgara á bandarískri grund.

Edwin M. Truman, hjá Peterson alþjóðahagfræðistofnuninni, telur að hótun Sádi-Araba sé innantóm. Að selja hundruð milljarða dollara eignir er ekki aðeins tæknilega flókið í útfærslu, heldur skapaði það mikla ringulreið í fjármálakerfi heimsins sem þeim yrði kennt um. 

Þá muni þetta koma á óstöðugleika bandaríkjadollars, gjaldmiðilinn sem riyal, gjaldmiðill Sádi-Arabíu, er bundinn við.

„Þeir gætu bara refsað okkur með því að refsa sjálfum sér,“ sagði Truman í samtali við NYT.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert