Angela Merkel Þýskalandskanslari hefur heimilað þýskum saksóknurum að höfða mál á hendur grínistanum Jan Böehrmann fyrir móðgun við erlendan þjóðhöfðingja. Böehrmann las háðsádeiluljóð um Recep Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, i sjónvarpi í lok síðasta mánaðar. Sagði hann þar Erdogan hafa haft kynmök við geitur og kindur, horft á barnaklám og beitt konur ofbeldi. Böehrmann viðurkenndi síðar að hann hefði líklega farið út fyrir lagaleg mörk málfrelsisins.
Málið hefur ollið nokkrum titringi í Þýskalandi, bæði í fjölmiðlum og í pólitík. Er Merkel sökuð um að beygja sig í duftið fyrir Erdogan til að stefna ekki umdeildum samningi Evrópusambandsins við Tyrkland vegna flóttamannavandans í hættu, en á kostnað mannréttinda og tjáningarfrelsis.
Erdogan krafðist þess að grínistinn yrði sóttur til saka en skv. þýskum lögum er óheimilt að gera grín að erlendum þjóðhöfðingjum. Í lögunum segir þó að það sé í höndum ríkisstjórnarinnar að ákveða hvort saksóknurum sé heimilt að sækja mál gegn einstaklingum sem gerast brotlegir við lögin.
Í yfirlýsingu sem Angela Merkel sendi frá sér segir hún að með því að heimila saksóknurum sé hún ekki að taka afstöðu til málsins, heldur sé það í höndum saksóknara og dómstóla.