Hryðjuverkin í New York 11. september árið 2001 líður borgarbúum seint úr minni. Það virðist þó ekki eiga við um auðkýfinginn Donald Trump sem ruglaði dagsetningunni saman við verslunarkeðjuna 7-Eleven á kosningafundi fyrir forkosningar repúblikana í New York-ríki.
„Ég var þarna og ég horfði á lögreglu- og slökkviliðsmennina okkar á 7-Eleven, niðri við World Trade Center um leið og hann hrundi og ég sá mikilfenglegasta fólk sem ég hef séð að störfum,“ sagði Trump við stuðningsmenn sína í Buffalo í gær.
Iðulega er vísað til árásanna með dagsetningunni 11. september en á ensku er þá talað um 9/11. Trump virtist ekki gera sér grein fyrir mistökum sínum og áheyrendur hans virtust heldur ekki kippa sér upp við þau, að því er kemur fram á vef New York Times.
Mistökin vöktu þó fljótt athygli á samfélagsmiðlum þar sem netverjar töldu verslunarkeðjuna hafa fengið bestu auglýsingu sem hún hefði nokkru sinni fengið.
Great ad for @7eleven or the greatest ad for @7eleven? https://t.co/ZjkGW8Hmn8
— Matt Wilstein (@TheMattWilstein) April 19, 2016