Túnfiskstofninn dregst saman um 97%

Túnfiskafli sem veiddur var ólöglega fluttur á milli skipa í …
Túnfiskafli sem veiddur var ólöglega fluttur á milli skipa í Kyrrahafi. ALEX HOFFORD

Ofveiði hefur valdið því að túnfiskstofninn í Kyrrahafi hefur dregist saman um 97% frá því sem verið hefur. Ekkert lát hefur verið á veiðunum þrátt fyrir að kallað hafi verið eftir því að stofninn fái að jafna sig. Á sumum svæðum er veitt allt að þrefalt meira en talist getur sjálfbært.

Niðurstöður rannsókna alþjóðavísindaráðsins um túnfisk í Norður-Kyrrahafi sýna að stofninn stendur enn veikar en áður var talið. Aðeins um 2,6% eru eftir að honum miðað við stærðina áður en veiðar hófust í miklum mæli. Árið 2014 voru nýir fiskar sem lifðu árið af undir 3,7 milljónum og hafa þeir aðeins einu sinni verið færri í sögu rannsókna.

Japanir borða um 80% af öllum túnfiski sem veiddur er í heiminum en vinsældir sushi um allan heim hafa leitt til mikillar eftirspurnar eftir honum.

Áætlað er að miðað við núverandi fjölgun stofnsins og fiskveiðistjórnun í Kyrrahafi séu aðeins 0,1% líkur á því að hægt verði að byggja stofninn upp í heilbrigða stærð. Þó að dregið yrði úr veiðunum um fimmtung myndu líkurnar aðeins aukast í um 3%.

Þær stofnanir sem bera ábyrgð á stjórn veiða á túnfiski hafa sett sér það markmið að stofninn verði 6,4% af fyrri stærð. Ekki er þó víst að það dugi til þar sem sérfræðingar segja að stofninn þurfi að nema að minnsta kosti fimmtungi af fyrri styrk sínum til að hægt sé að veiða úr honum með sjálfbærum hætti.

Frétt Time

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert