Evrópusambandið eykur vægi Bretlands á alþjóðavísu og aðild landsins að sambandinu skiptir bandaríska hagsmuni miklu máli. Þetta segir Barack Obama Bandaríkjaforseti í grein sem birtist í breska dagblaðinu Daily Telegraph í dag en forsetinn kom til Bretlands í dag í opinbera heimsókn.
Fyrirfram var vitað að Obama ætlaði að blanda sér í umræðuna í Bretlandi um áframhaldandi veru landsins í Evrópusambandinu en Bretar kjósa um málið í þjóðaratkvæði 23. júní. Obama hefur verið harðlega gagnrýndur af stuðningsmönnum þess að yfirgefa sambandið fyrir afskipti af innanlandsmálum Breta. Þá hefur verið bent á að Bandaríkjamenn myndu aldrei sætta sig sjálfir við að sæta hliðstæðri fullveldisskerðingu og Bretland sæti innan Evrópusambandsins.
Obama mun funda með David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, í dag og snæða hádegisverð með Elísabetu Bretadrottninu. Forsetinn sagði ennfremur í greininni að vera Breta í Evrópusambandinu væri forsenda náins sambands Bandaríkjanna við sambandið. Brotthvarf Bretlands úr sambandinu myndi hafa áhrif á hagsmuni Bandaríkjamanna.
„Evrópusambandið dregur ekki úr breskum áhrifum heldur eykur þau. Sterkt Evrópusamband er ekki ógn við alþjóðlega stöðu Bretlands heldur eykur það forystu Breta á alþjóðavísu,“ segir Obama ennfremur í greininni. Öflug rödd Bretlands tryggi að sterka stöðu Evrópusambandsins í heiminum og haldi sambandinu opnu, víðsýnu og í nánum tengslum við Bandaríkin og aðra bandamenn hinu megin við Atlandshafið.
Obama hefur ítrekað lýst því yfir að hann vilji að Bretland verði áfram í Evrópusambandinu samkvæmt frétt AFP.