Angela Merkel hóf í dag heimsókn sína til Tyrklands í Nizip 2 flóttamannabúðum á landamærunum við Sýrland. Heimsóknin er liður í því að styrkja 6 milljarða evra samning Evrópusambandsins við Tyrki um móttöku flóttafólks sem hefur verið harðlega gagnrýndur innan sambandsins og utan.
„Velkomin til Tyrklands, landsins sem hýsir flest flóttafólk í öllum heiminum,“ stóð á flennistórum borða yfir innganginum í búðirnar við komu Merkel en um 5.000 manns dvelja þar í einingahúsum. Fénu sem Tyrkjum verður greitt á að verja til þess að bæta aðbúnað þeirra 2,7 milljóna flóttamanna sem hafast við í landinu.
Fyrri frétt mbl.is: Merkel viðurkennir mistök
Meðal þess sem kveðið er á um í samningi Tyrkja við ESB eru frjáls ferðalög tyrkneskra ríkisborgara til sambandsins, án vegabréfsáritunar. Núningur hefur verið milli samingsaðila um þetta atriði en Erdogan forseti Tyrklands hefur hótað að rifta samningnum gangi þetta ekki eftir. ESB hefur lofað að setja fram tillögu um tilslakanirnar 4. maí ef Tyrkir standa við sinn hluta af samningnum.
Eftir að samningum var náð við Tyrki dró snögglega úr straumi flóttafólks til Evrópu en Alþjóða flóttamannastofnunin hefur sagt tölurnar aftur komnar á uppleið. Angela Merkel hefur sagt heimsóknina nú tækifæri til þess að meta hvernig innleiðingu samkomulagsins miðar og sjá við hvaða aðstæður flóttafólk býr við.
Viktor Orban forseti Ungverjalands, sem hefur verið ötull talsmaður gegn móttöku flóttafólks í Evrópu, hefur harðlega gagnrýnt samninginn og sagt ESB með honum selja sig ódýrt til Tyrkja. Afleiðingarnar af því verði ómögulegt að segja til um, en bætti við: „Öryggi Evrópusambandsins má aldrei vera í höndum utanaðkomandi aðila.“
Forstjóri Human Rights Watch, Judith Sutherland, hefur dregið talsvert í efa gagnsemi heimsóknar Merkel. Hún segir kanslarann verða á ferð í hvítþvegnum búðum sem Tyrkir hafi handvalið. „[Sendinefndin] ætti að heimsækja fangabúðir þar sem fólk sem fólk sem vísað var frá Grikklandi við illan leik er í haldi.“
Amnesty International hefur sömuleiðis biðlað til ESB um að loka ekki augunum fyrir „löngum lista mannréttindabrota sem flóttafólk verður fyrir“ í Tyrklandi, og ítrekaði fullyrðingar sínar um að tyrkneskir hermenn hafi skotið á sýrlenskt flóttafólk.