Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur útilokað landhernað bandaríska hersins í Sýrlandi og segir að hernaður einn og sér geti ekki leyst vandamálin þar í landi.
„Það yrðu mistök fyrir Bandaríkin eða Bretland...að senda fótgönguliða til að steypa Assad af stóli,“ sagði hann við BBC og átti við forseta Sýrlands, Bashar al-Assad.
Í viðtalinu sagði hann einnig að hann ætti ekki von á því að Ríki íslams verði sigrað á síðustu níu mánuðum hans í embætti forseta. En hann bætti við: „Við getum hægt og bítandi dregið úr umsvifum þeirra.“
Obama, sem er í þriggja daga heimsókn í Bretlandi, sagði að ástandið í Sýrlandi væri „sorglegt og afar flókið“.
„Það eru engar einfaldar lausnir fyrir hendi,“ sagði forsetinn. „Til að leysa langtíma vandamálin í Sýrlandi gengur hernaður ekki einn og sér, hvað þá landhernaður. Hann mun ekki leysa vandamálið.“