Ritstjóri eina tímarits LGBT-fólks í Bangladess er sagður annar tveggja manna sem óþekktir árásarmenn hjuggu til bana í íbúð í höfuðborginni Dhaka í dag. Talsmaður lögreglunnar segir að einn sé særður til viðbótar. Sveðjuárásir íslamskra öfgamanna hafa verið tíðar í landinu síðustu misseri.
Lögreglan hefur ekki gefið upp nöfn fórnarlambanna en einkarekin sjónvarpsstöð fullyrðir að annað þeirra sé ritstjóri Roopbaan, eina tímarits LGBT-samfélagsins í Bangladess. Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir vinum hans að hann hafi einnig unnið fyrir bandarísku þróunarstofnunina USAID.
Aðeins tveir dagar eru liðnir frá því að háskólakennari var hogginn til bana af mönnum sem taldir eru herskáir íslamista. Slíkar sveðjuárásir hafa verið tíðar gegn veraldlega þenkjandi bloggurum og rithöfundum.
Í desember voru tveir námsmenn dæmdir til dauða fyrir morð á veraldlega sinnuðum bloggara árið 2013. Þeir voru taldir vera undir áhrifum eldklerks sem boðaði að lögmætt væri að drepa trúlausa bloggara sem töluðu gegn íslam. Það er talið hafa verið fyrsta morðið sem hratt af stað hrinu samskonar árása.