Forsetaframbjóðendurnir Donald Trump og Hillary Clinton unnu í nótt stóra sigra í forkosningum fyrir bandarísku forsetakosningarnar. Kosið var í fimm ríkjum í nótt og sigraði Trump í öllum fylkunum í forvali Repúblikanaflokksins en Clinton sigraði í fjórum af fimm ríkjum í forvali Demókrataflokksins.
Trump sagði eftir að úrslitin voru orðin ljós að hann væri „sennilegur frambjóðandi“ fyrir Repúblikanaflokkinn, en hann hefur flesta kjörmenn á bakvið sig fyrir flokksþing flokksins í júlí. Enn er hann þó ekki kominn með hreinan meirihluta, en andstæðingar hans ákváðu í vikunni að sameinast gegn Trump.
Kosið var í ríkjunum Connecticut, Delaware, Maryland, Pennsylvaníu og Rhode Island. Það var aðeins í Rhode Island þar sem mótframbjóðandi Clinton, Bernie Sanders, vann sigur. Sagði Sanders eftir að úrslitin urðu ljós að hann myndi þrátt fyrir það halda baráttu sinni áfram þangað til forvalið væri á enda.
Clinton hélt fund í Philadelphiu eftir úrslitin og sagði að kosningaherferð hennar setti fram stórtæk og framsækin markmið til að bæta líf íbúa Bandaríkjanna. „Við trúum á góðmennsku fólksins og stórfengleika þjóðarinnar,“ sagði Clinton.
Trump hefur vakið mikla athygli fyrir framgöngu sína í kosningabaráttunni og margir sagt að hann gengi fram með gífuryrðum sem hann myndi svo draga í land með ef hann yrði valinn forseti. Á fundi með kjósendum í New York í nótt sagði Trump aftur á móti að ef hann yrði kosinn þá myndi hann ekki breyta persónuleika sínum. Hann hafi farið í bestu skólana sem völ var á og að hann væri klár einstaklingur sem myndi koma fram fyrir hönd þjóðar sinnar og njóta virðingar og hann þyrfti ekki að breyta neinu til að gera það.
Þá skaut hann einnig á Clinton í ræðu sinni og sagði að ef hún væri karlmaður væri hún örugglega aðeins með 5% fylgi. Clinton svaraði þessu með þeim orðum að ef það að berjast fyrir fæðingarorlofi, heilbrigðismálum kvenna og jöfnum kjörum kynjanna væri kynjaspilið þá væri hún sátt að standa fyrir það.
Demókrataflokkurinn hefur haldið 43 forvöl með kosningunum í gær. Til að hljóta útnefningu flokksins þarf 2.383 kjörmenn, en í þeirri tölu eru einnig þeir sem kallast „ofur-kjörmenn“ og eru með kjörrétt óháð úrslitum forvalanna. Flestir þeirra hafa lýst yfir stuðningi við Clinton.
Hillary Clinton - 2.168 kjörmenn samtals. Þar af 1.666 vegna forvalskosninga og 502 „ofur-kjörmenn.“ Hún hefur sigrað í 25 ríkjum.
Bernie Sanders - 1.401 kjörmenn samtals. Þar af 1.359 vegna forvalskosninga og 42 „ofur-kjörmenn.“ Hann hefur sigrað í 18 ríkjum.
Repúblikanaflokkurinn hefur haldið 40 forvöl. Þá eru sex ríki sem munu ekki halda forvalskosningar. Til að hljóta útnefningu flokksins þarf 1.237 kjörmenn. Nokkrir kjörmenn hafa þó sagt að þeir fari óbundnir á flokksþingið.
Donal Trump - 988 kjörmenn. Hefur unnið í 27 ríkjum.
Ted Cruz - 568 kjörmenn. Hefur unnið í níu ríkjum.
John Kasich - 152 kjörmenn. Hefur unnið í einu ríki.
Marco Rubio - 173 kjörmenn. Vann í þremur ríkjum en hefur dregið framboð sitt til baka.