Keyptu flugferð frá rangri borg

Frá Las vegas.
Frá Las vegas. AFP

Breskt par varð af draumaferðinni sinni til Las Vegas í Bandaríkjunum þegar í ljós kom að konan hafði bókað flug frá rangri borg. Til stóð að fljúga frá Birmingham í Bretlandi en í staðinn bókaði konan ferð frá Birmingham í Alabama-ríki í Bandaríkjunum.

Richella Heekin ætlaði að koma unnusta sínum, Ben Marlow, á óvart á þrítugsafmæli hans með þeim tíðindum að þau væru á leiðinni til Bandaríkjanna. Hún hafði safnað fyrir ferðinni í tvö ár og leitað síðan að hagstæðustu flugferðinni á netinu.

Einungis munar einum bókstaf á einkennisstöfum Birmingham í Bretlandi og Birmingham í Alabama, annars vegar eru þeir BHX og hins vegar BHM. Ferðin kostaði þau 1.200 pund eða sem nemur um 217 þúsund krónum. Þau ákváðu hins vegar að reyna að gera það besta úr stöðunni og fóru til Amsterdam í Hollandi í staðinn.

Haft er eftir Marlow í frétt Daily Telegraph að þau séu farin að safna aftur fyrir ferð til Bandaríkjanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert