Dómstóll í Norður-Kóreu dæmdi í dag Bandaríkjamann af kóreskum uppruna, Kim Dong-Chul, í 10 ára þrælkunarvinnu vegna gruns um njósnir og spillingu. Maðurinn er 62 ára gamall og var handtekinn í október í fyrra.
Mikil spenna hefur verið á Kóreuskaganum undanfarið í kjölfar hernaðaræfinga Suður-Kóreu og Bandaríkjamanna og ákvörðunar Norður-Kóreu um að dæma bandarískan nema í 15 ára þrælkunarvinnu í síðasta mánuði fyrir að hafa stolið borða með áróðri yfirvalda Norður-Kóreu af ferðamannahóteli í höfuðborginni Pyongyang.
Kínverska fréttastofan Xinhua sagði frá málinu, en þar kemur fram að dómurinn yfir Kim hafi verið kveðinn upp af hæstarétti Norður-Kóreu. Engin staðfesting hefur borist frá Norður-Kóreu um málið.
Samkvæmt saksóknara málsins var Kim sagður hafa stundað „afturhaldssaman áróður,“ en hann var talinn hafa stolið hernaðarupplýsingum. Hann hefur búið í Kína rétt við landamæri Norður-Kóreu undanfarin 15 ár þaðan sem hann hefur farið til vinnu í efnahagssvæðinu Rason í Norður-Kóreu, en það er samvinnuverkefni Norður-Kóreu og Kína til að auka erlenda fjármögnun í landinu. Kínversk og rússnesk fyrirtæki hafa þar opnað starfsstöðvar sínar.