Vill algjört bann á sölu fílabeins

Forseti Kenía vill að viðskipti með fílabein verði með öllu bönnuð. Þetta verði gert til að vernda viðkvæman stofn fíla.

„Ef við missum fílana okkar væri það eins og að missa hluta af menningu okkar sem við erum stolt af og treystum á. Þetta er einfalt, við munum ekki leyfa það,“ sagði Kenyatta er hann hélt ræðu meðal leiðtoga Afríku í dag. „Við ætlum ekki að verða Afríkumennirnir sem gerðum ekkert á meðan fílarnir hurfu.“

Í Afríku eru um 450-500 þúsund fílar. Á hverju ári eru um 30 þúsund þeirra felldir vegna eftirspurnar eftir fílabeini á mörkuðum í Asíu. Skögultennur þeirra seljast t.d. á um 1.000 dollara kílóið.

„Framtíð afríska fílsins og nashyrningsins er langt í frá tryggð, svo lengi sem eftirspurn er eftir varningi úr beinum þeirra,“ sagði Kenyatta. 

Á morgun mun Kenyatta kveikja í stærsta safni fílabeins sem brennt hefur verið. Kveikt verður í 105 tonnum fílabeins úr 8.000 fílum. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert