„Við köllum hann Lyga-Tedda“

Flest bendir til þess að Hillary Clinton og Donald Trump …
Flest bendir til þess að Hillary Clinton og Donald Trump muni verða frambjóðendur flokka sinna í forsetakosningunum í nóvember. Ljósmynd / AFP PHOTO / dsk

Núna á þriðjudaginn, 3. maí, er enn einn „Ofurþriðjudagurinn“ þegar forkosningar fyrir bandarísku forsetakosningarnar í nóvember verða haldnar í sex ríkjum. Meðal þeirra er Indiana-ríki sem talið er geta ráðið endanlegum úrslitum í forkosningum repúblikana.

Donald Trump, sem fátt virðist ætla að stöðva í að verða forsetaframbjóðandi Repúblikanaflokksins, lagði áherslu á það í fréttaþættinum Fox News Sunday í dag að ráðast að Hillary Clinton.

Vön að fást við karla sem kunna sig ekki

„Hún hefur staðið sig svo illa á svo margan hátt,“ sagði Trump. „Ef hún væri ekki kona, þá væri hún ekki einu sinni í þessari baráttu,“ bætti hann við en ummæli hans um að eina spilið sem Clinton hafi á hendi sé „konuspilið“ hefur vakið talsverða athygli og sýnist sitt hverjum.

Clinton lét sér fátt um finnast og í viðtali við CNN sagðist hún hafa langa reynslu af því að fást við karlmenn sem kynnu sig ekki í orðum og æði. 

Trump telur útnefninguna í höfn

Í þættinum gagnrýndi Trump einnig Ted Cruz, sem einnig berst um útnefningu Repúblikanaflokksins, en Cruz gerði stuðning hnefaleikamannsins Mike Tysons við Trump að umtalsefni og kallaði hann nauðgara. „Þetta skiptir engu máli,“ sagði Trump og bætti við að hann hefði ekki hitt Tyson í áraraðir. „Þessi gaur er alger lygari,“ sagði hann síðan um Cruz. „Þess vegna köllum við hann Lyga-Tedda.“ (Lyin' Ted).

Spurður hvort hann teldi að sigur í forkosningunum í Indiana-ríki á þriðjudaginn myndi innsigla tilnefningu hans kvað Trump já við. „Já, þetta er þá komið. Ég held að þetta sé komið núna.“ Kannanir vestanhafs sýna að Trump er með um 15% forskot í ríkinu.

Tvær hliðar á sama peningnum

Cruz skaut til baka á Trump í fréttaþættinum Face the Nation á CBS þegar hann sagði að auðjöfurinn væri að reyna að framkvæma mesta svindl í sögu nútímakosninga með því að reyna að telja fólki trú um að hann væri einhvers konar utangarðsmaður.

„Donald og Hillary eru í raun tvær hliðar á sama peningnum,“ sagði Cruz. „Við höfum brugðist sem þjóð ef frambjóðendurnir tveir verða báðir efnaðir og frjálslyndir New York búar.“

Ted Cruz.
Ted Cruz. Ljósmynd/Win McNamee/Getty Images/AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert