Kínverjar „nauðga“ Bandaríkjunum

Trump hélt uppi harðri gagnrýni á kínversk stjórnvöld á kosningafundi …
Trump hélt uppi harðri gagnrýni á kínversk stjórnvöld á kosningafundi í gær. AFP

Líklegasti forsetaframbjóðandi repúblikana, Donald Trump, skaut föstum skotum á Kínverja á fundi með stuðningsmönnum sínum í Indiana í gær. Sagði hann Kínverja bera ábyrgð á „stærsta þjófnaði sögunnar“ og sakaði þá um að „nauðga“ Bandaríkjunum með ósanngjarnri viðskiptastefnu.

Trump hefur lengi gagnrýnt kínversk stjórnvöld fyrir að handstýra gengi gjaldmiðils landsins til þess að gera útflutningsvörur þess samkeppnishæfari á erlendum mörkuðum. Þetta telur hann hafa komið illilega niður á bandarískum fyrirtækjum og verkamönnum.

„Við getum ekki leyft Kína að nauðga landinu okkar og það er það sem við erum að gera. Við ætlum að snúa þessu við og við höfum spilin á hendi, ekki gleyma því. Við höfum mikið vald yfir Kína,“ sagði Trump á kosningafundi í Indiana í gær en kosið verður í forvali repúblikana þar á morgun.

Í stefnuskrá sinni heitir Trump því að „ná betri samningi“ við Kínverja sem á að hjálpa bandarískum fyrirtækjum og launamönnum að vera samkeppnisfærir. Á meðal fjögurra markmiða sem auðjöfurinn setur fram er að lýsa því strax yfir að Kínverjar séu „gengissvindlarar“ og að binda enda á ólöglegar niðurgreiðslur Kínverja á útflutningi og slappt regluverk um launafólk og umhverfi.

Frétt BBC

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka