Tæknibilun talin hafa valdið slysinu

Talið er að tæknibilun hafi valdið slysinu.
Talið er að tæknibilun hafi valdið slysinu. TORSTEIN BOE

Rannsóknarnefnd flugslysa í Noregi telur  að yfirgnæfandi líkur séu á að tæknibilun hafi valdið þyrluslysinu sem varð þrettán manns að bana fyrir helgi, en ekki mistök flugmanna. Aðdragandinn að slysinu var svo skammur að ekki gafst tími til að senda út neyðarkall.

Þrettán létust þegar Super Puma-þyrla orkufyrirtækisins Statoil fórst við Turøy á Hörðalandi, vestan við Björgvin. Þyrlan var að flytja fólk af olíuborpöllum í Norðursjó í land, en að sögn sjónarvotta losnuðu spaðarnir af skrokknum í heilu lagi.

Flak þyrlunnar var flutt til Björgvinjar um helgina svo hægt væri að rannsaka það og var niðurstaða frumrannsóknar kynnt í dag. „Þær upplýsingar sem við höfum núna benda til þess að þetta hafi verið tæknibilun, ekki mistök flugmanna,“ hefur fréttavefur BBC eftir Kåre Halvorsen, formanni rannsóknarnefndar flugslysa í Noregi.

Innan við sekúnda frá því bilun kom upp og þar til flugritinn stöðvaðist

Segir Halvorsen í viðtali við norska dagblaðið Verdens Gang að rannsókn á flugritunum hafi sýnt að allt hafi verið eðlilegt um borð þar til rétt áður en slysið varð.  Innan við sekúnda hafi liðið milli þess að bilunin kom upp og þar til flugritin stöðvaðist. Aðdragandinn hafi verið svo skammur að áhöfninni hafi ekki gefist tími til að senda út neyðarkall.

Viðvörunarljós kviknaði hins vegar í stjórnklefa þyrlunnar í tvígang dagana áður en hún hrapaði og var í bæði skiptin skipt um íhlut.

Halvorsen ítrekaði að rannsóknin væri þó enn á frumstigi og ekki lægju fyrir endanlegar niðurstöður.

Þyrluframleiðandinn Airbus kyrrsetti allar Super Puma-þyrlur af þessari gerð eftir slysið. Airbus tilkynnti síðan á mánudag að ekki væri lengur þörf á kyrrsetningu og fullyrti að  þyrlurnar væru öruggar.

Samtök verkalýðsfélaga í olíu og gasvinnslu sendu frá sér ákall um að allar Super Puma þyrlur af þesari gerð yrðu þó áfram kyrrsettar þar til ástæður slyssins lægju fyrir.

„Starfsfólk í Noregi og Bretlandi verður að hafa raunverulega fullvissu frá eftirlitsaðilum áður en það á að hugleiða að fljúga þessari gerð,“ sagði  framkvæmdastjóri samtakanna Tommy Campbell.

„Yfirlýsingar frá framleiðendum og stjórnendum duga ekki til.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert