Tyrkir ferðast frjálsir

ESB er að meta að veita Tyrkjum aðgang að Schengen-svæðinu.
ESB er að meta að veita Tyrkjum aðgang að Schengen-svæðinu. Mynd/Heimir Bragi

Evrópusambandið ætlar að veita Tyrkjum heimild til að ferðast án vegabréfaáritunar um Schengen-svæðið og er það hluti af samningi sem fól í sér að Tyrkir tækju aftur við flótta- og farandfólki sem hefur farið þaðan yfir til Grikklands. Tyrkir þurfa þó að standast nokkur skilyrði fyrst.

Breska ríkisútvarpið hefur þetta eftir heimildamönnum sínum. Evrópusambandið óttist að án vegabréfasamkomulagsins muni Tyrkland ekki koma böndum á straum fólks inn í álfuna. Evrópuþingið og aðildarríki ESB þurfa hins vegar að samþykkja ráðstöfunina áður en Tyrkir geta byrjað að ferðast vegabréfslaust um Schengen-svæðið.

ESB gerir kröfur til ríkja um að það standist ýmsar kröfur, meðal annars um um tjáningarfrelsi, sanngjörn réttarhöld og endurskoðun hryðjuverkalöggjafar til að tryggja réttindi minnihlutahópa, áður en það afléttir kvöðum um vegabréfsáritanir.

Í umfjöllun BBC segir að ef framkvæmdastjórn ESB leggur til að Tyrkir fái að ferðast frjálsir innan Evrópu verði það með miklum trega. Erfitt sé að halda því fram að Tyrkland standist þessar kröfur en stjórnvöld hafa fært sig nær alræðisstjórn síðustu misserin. Nauðsyn vegna flóttamannastraumsins til Evrópu knýi hins vegar á um að þetta verði látið eftir tyrkneskum stjórnvöldum.

Frétt BBC

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert