Einu flóttaleiðinni framhjá kanadísku borginni Fort McMurray, þar sem gífurlegir eldar hafa brunnið undanfarna daga, var lokað í dag af ríflega 60 metra háum eldtungum sitthvoru megin vegarins.
Að sögn fréttavefjar BBC var bílalest 1.500 bíla í fylgd lögreglu á leið að veginum sem liggur framhjá suðurhluta borgarinnar, en bílalestin er á leið til Edmonton og Calgary.
Hlutar Fort McMurray eru gjöreyðilagðir eftir eldana og að sögn yfirvalda mun taka fjóra daga að flytja alla sem eru innilokaðir á eldsvæðinu á brott.
Margarita Carnicero, er ein þeirra sem ók í lögreglufylgd í snarhasti framhjá Fort McMurray með eldhafið á báða bóga. „Við vorum ekki vissar um að við kæmumst í gegn,“ sagði Carnicero í viðtali við AFP-fréttastofuna.
„Þetta var hræðileg lífsreynsla. Ég var hrædd en reyndi að láta ekki á því bera svo ég gerði ekki dóttur mína óttaslegna.“
Bíllinn var hlaðinn persónulegum eigum þeirra og fjölskylduhundinum sem hnipraði sig saman í aftursætinu, en mæðgurnar voru með þeim fyrstu sem komust í öruggt skjól við Wandering River, smáþorp um 200 km suður af Fort McMurray.
Um 500 bílar lögðu á sig þessa hættulegu ferð fram hjá brunarústum bíla og bygginga, með sinuelda beggja vegna vegarins.
Carnicero sagði yfirvöld hafa viljað fljúga í öruggt skjól með þá sem lokaðir voru inni á olíusvæðunum norður af Fort McMurray. Margir hafi hins vegar ekki viljað yfirgefa bíla sína, sem fólk hafi hlaðið persónulegum eigum sínum þegar brottflutningar voru fyrirskipaðir fyrr í vikunni.
Justin Trudeau, forsætisráðherra Kanada, sendi í dag frá sér yfirlýsingu þar sem hann hvatti alla Kanadabúa til að láta eitthvað af hendi rakna til þeirra góðgerðarsamtaka sem aðstoði fórnarlömb eldanna.
„Mig langar enn og aftur að þakka öllum þeim sem vinna dag og nótt við að ráða niðurlögum eldanna,“ sagði Trudeau. „Og þið sem hafið misst svo mikið; við erum óbugandi, við erum Kanadabúar og við munum í sameiningu komast í gegnum þessa erfiðu tíma.“