Donald Trump segir þau ummæli Pauls Ryan, forseta fulltrúadeildar Bandaríkjaþings, um að hann sé ekki tilbúinn að styðja væntanlega forsetaframbjóðanda flokksins hafa komið sér á óvart. Þeir muni funda í næstu viku en Trump segist ekki vita um hvað.
Mörgum forsvarsmönnum Repúblikanaflokksins hugnast illa að hafa Trump sem forsetaframbjóðanda sinn. Sumir hafa jafnvel lýst því yfir að þeir ætli frekar að kjósa Hillary Clinton. Aðrir, eins og Ryan sem er einn valdamesti fulltrúi repúblikana, segjast ekki tilbúnir að styðja hann að svo komnu máli.
„Það kom mér virkilega á óvart. Og það er allt í sómanum. Hann getur gert hvað sem hann vill en það kom mér á óvart,“ sagði Trump í viðtali við Fox-sjónvarpsstöðina í morgun.
Ryan og Trump eiga fund í næstu viku en þegar Trump var spurður hvað þeir myndu ræða sagðist hann ekki hafa hugmynd um það.