Tilvist Evrópusambandsins í hættu

AFP

Frekari efnahagserfiðleikar innan Evrópusambandsins gætu leitt til þess að sambandið liðist í sundur að mati alþjóðlega matsfyrirtækisins Moody's. Fyrirtækið hefur sent frá sér viðvörun þess efnis að „sársaukafullar aðlaganir“ í efnahagsmálum sem sum evruríki stæðu frammi fyrir gætu leitt til hruns evrusvæðisins. Jafnvel minniháttar erfiðleikar gætu sett af stað keðjuverkun sem enginn hefði stjórn á og myndi ógna áframhaldandi tilvist ESB og stofnana þess.

Moody's lofar verulegan pólitískan árangur ESB við að koma á bankabandalagi innan sambandsins og björgunarsjóði fyrir evrusvæðið. Hins vegar hefðu endalausar kröfur um efnahagslegar aðhaldsaðgerðir í skiptum fyrir aðstoð aukið á djúpstæða andúð á ESB. Einkum í ríkjum sambandsins sem glímt hafi við mjög hátt atvinnuleysi. Meðal þess sem ógnaði ESB væri mögulegt brotthvarf Breta og uppgangur stjórnmálaafla andvígum sambandinu og kerfinu.

Haft er eftir Colin Ellis, háttsettum starfsmanni Moody's í Evrópu, á fréttavef Daily Telegraph að fari Bretar úr ESB gæti það ógnað sambandinu. „Jafnvel þó ESB lifi af núverandi áskoranir að mestu óskaddað gæti jafnvel minniháttar krísa í framtíðinni samhliða neikvæða afstöðu almennings og uppgangi lýðskrumara ógnað tilvist núverandi stofnanakerfis sambandsins. Þetta gæti skapað þá tilfinningu að það væri ekki spurning hvort heldur hvenær kerfið hrynur.“

AFP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka