Rússnesk vopnaveisla í Sýrlandi

Vladimír Pútín Rússlandsforseti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. AFP

Rússneski flugherinn hóf lofthernað sinn innan landamæra Sýrlands í september á seinasta ári, en markmiðið með hernaðinum er að styðja við bakið á ríkisstjórn Bashars al-Assads Sýrlandsforseta. Um fimm og hálfum mánuði eftir að Vladimír Pútín Rússlandsforseti heimilaði aðgerðirnar tilkynnti hann að meginhluti rússneska heraflans væri á heimleið. Á þessum tíma flugu orrustuþotur Rússa um 9.000 leiðangra gegn vígahópum í Sýrlandi.

Rússneski herinn er þó, þrátt fyrir þessi ummæli Pútíns, enn mjög áberandi innan landamæra Sýrlands og má þar finna fjölmargar tegundir af orrustuþotum og herþyrlum. Á meðan sum vígatól héldu aftur til Rússlands að loknum aðgerðum hafa önnur verið flutt til Sýrlands.

Fréttamenn CNN í Bandaríkjunum hafa að undanförnu fengið að fylgjast með aðgerðum Rússa frá Hmeimim-herflugvelli Rússa í norðurhluta Sýrlands. 

Tæknimenn undirbúa SU-34 orrustuþotu fyrir aðgerð gegn vígasveitum í Sýrlandi.
Tæknimenn undirbúa SU-34 orrustuþotu fyrir aðgerð gegn vígasveitum í Sýrlandi. AFP

Meðal þess sem þar er að finna má nefna orrustuþotuna SU-34 sem hönnuð er til árása á skotmörk á jörðu niðri. Um er að ræða einhverja fullkomnustu þotu rússneska hersins og hentar hún vel til aðgerða sem krefjast langflugs. SU-34 getur borið hinar ýmsu tegundir af sprengjum, allt frá hefðbundnum sprengjum án sérstaks stýribúnaðar yfir í flóknar laser-stýrðar sprengjur. En að hámarki getur vélin flutt 8 tonn af sprengiefni og skotfærum. Fréttamenn CNN sáu minnst sex SU-34 orrustuþotur á flugvellinum og fóru nokkrar þeirra í leiðangra á meðan þeir voru þar. 

Rússnesk SU-24 á flugi við bandaríska herskipið USS Donald Cook.
Rússnesk SU-24 á flugi við bandaríska herskipið USS Donald Cook. AFP

Orrustuþotur af gerðinni SU-24 eru einnig staðsettar á Hmeimim-herflugvellinum, en vélar af þessari gerð hafa flogið flesta leiðangra gegn vígasveitum í Sýrlandi frá því að lofthernaður Rússa hófst þar í landi. SU-24 er, líkt og SU-34, hönnuð til að sprengja upp skotmörk á jörðu niðri og var hún fyrst þróuð á tímum Kalda stríðsins. Rússneski flugherinn hefur notað orrustuþotur af þessari gerð frá 9. áratug síðustu aldar. 

Flugvél af þessari gerð komst nýverið í fréttirnar eftir að tyrkneskar hersveitir skutu eina slíka niður við landamæri Tyrklands og Sýrlands. Málið var strax litið alvarlegum augum innan alþjóðasamfélagsins og boðaði Atlantshafsbandalagið (NATO) meðal annars til neyðarfundar. Fréttamenn CNN sáu minnst 12 SU-24 orrustuvélar á flugvellinum og fóru þær í tíðar aðgerðir á meðan þeir voru þar.

SU-35 lendir á Hmeimim-herflugvellinum í Sýrlandi.
SU-35 lendir á Hmeimim-herflugvellinum í Sýrlandi. AFP

Eftir að tyrknesk herþota skaut niður áðurnefnda sprengjuvél ákváðu stjórnvöld í Kreml að senda herþotu af gerðinni SU-35 til Sýrlands, en hún er hönnuð fyrir lofthernað við aðrar flugvélar. Í hvert skipti sem sprengjuflugvélar Rússa taka á loft eru SU-35 herflugvélar sendar með þeim. Hlutverk þeirra er að tryggja öryggi sprengjuvélanna á meðan aðgerðir standa yfir. CNN sá minnst sex SU-35 á herflugvellinum. 

MI-28 herþyrla á flugi.
MI-28 herþyrla á flugi. Ljósmynd/Wikipedia

Rússar hafa ekki einungis sent vopnaðar sprengju- og orrustuþotur til Sýrlands því á Hmeimim-herflugvellinum er einnig að finna þyrlur af gerðinni MI-28, nýjasta viðbót rússneska heraflans í Sýrlandi. Um borð í þyrlunni eru tveir flugmenn og er hún útbúin stýriflaugum og öflugri vélbyssu sem staðsett er undir flugstjórnarklefanum. Ein þyrla af þessari gerð hefur, þrátt fyrir að þyrlurnar hafi ekki verið notaðar lengi í Sýrlandi, hrapað og létust báðir flugmenn hennar. Talið er að einhvers konar bilun eða mistök flugmanna hafi átt sér stað.  

Fréttamenn CNN sáu fjölmargar þyrlur af þessari gerð og virðast þær mikið notaðar, t.d. til þess að veita flugvélum vörn er þær taka á loft og lenda á flugvellinum.

Rússnesk MI-24 þyrla.
Rússnesk MI-24 þyrla. Ljósmynd/Wikipedia

Ein þekktasta herþyrla Rússa, MI-24, er mjög áberandi í átökunum í Sýrlandi en hún er óspart notuð til að veita hersveitum Assads forseta liðsauka í bardögum við vígasveitir. Um borð í þyrlunni má finna fjölbreytt vopnaval, en flestar sprengjur sem þyrlan notar eru án sérstaks stýribúnaðar. Er þyrlan einnig útbúin afar öflugri vél- eða fallbyssu sem unnið getur á flestum vígatólum óvinarins. Um borð eru tveir í áhöfn, flugmaður og stjórnandi vopna, en einnig getur þyrlan borið nokkra farþega aukalega.

Herþyrlur af þessari gerð fóru fyrst í þjónustu rússneska hersins á 8. áratug síðustu aldar og voru mikið notaðar í stríði Rússa í Afganistan á sínum tíma. Búið er að uppfæra þær þyrlur sem notast er við í Sýrlandi.  

Þetta er einungis brot af þeim herafla sem Rússar hafa í Sýrlandi. Fréttamenn CNN segjast hafa séð fjölmargar aðrar tegundir af fraktþyrlum, -flugvélum, skriðdrekum, brynvörðum bílum og flugskeytakerfum sem skotið geta niður flugvélar úr mikilli hæð. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert