Ekki hægt að treysta á frið í Evrópu

Boris Johnson og David Cameron eru ósammála um þörfina á …
Boris Johnson og David Cameron eru ósammála um þörfina á því að Bretar haldi sig í Evrópusambandinu. AFP

David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, sagði í morgun að ekki væri hægt að tryggja frið í Evrópu og því væri það Bretum í hag að geta haft áhrif á hvað yrði um „nágranna okkar“. Er þetta talið vera nýjasta útspil forsætisráðherrans í baráttu hans gegn því að Bretland yfirgefi Evrópusambandið.

Talið er að Boris Johnson, einn helsti stuðningsmaður þess að Bretar yfirgefið sambandið, muni svara ummælum ráðherrans í dag. Þeir sem styðja útgöngu Breta úr sambandinu halda því fram að um­mæli Ca­merons sýni þá ör­vænt­ingu sem rík­ir meðal þeirra sem vilja að Bret­ar haldi sig í sam­band­inu og sé enn önn­ur til­raun þeirra til þess að hræða kjós­end­ur.

Kosið verður um áframhaldandi aðild Bretar að Evrópusambandinu 23. júní.

Cameron sagði í morgun að Bretar hefðu skrifað sögu Evrópu rétt eins og „Evrópa hefði hjálpað við að skrifa okkar. Þær stundir sem við erum stoltust af eru einnig merkilegar stundir í sögu Evrópu,“ sagði Cameron og nefndi í því samhengi m.a. bardagann við Waterloo og aðkomu Breta að fyrri og seinni heimsstyrjöld.

„Evrópusambandið hefur hjálpað við að sætta lönd sem hafa verið ósátt í marga áratugi. Það er í þágu þjóðarinnar að viðhalda sameiginlegum markmiðum sínum við Evrópu til þess að forðast átök í framtíðinni við önnur lönd Evrópu. Það krefst þess að Bretar verði áfram í Evrópusambandinu. Sannleikurinn er sá að það sem gerist í nágrannalöndum okkar kemur Bretlandi við.“

Bætti hann við að ef að til átaka kæmi í Evrópu gætui Bretar ekki látið eins og afleiðingarnar kæmu þeim ekki við. „Erum við það viss um að friður og stöðugleiki verði áfram í Evrópu? Getum við tekið þá áhættu?“ spurði Cameron.

Frétt Sky News.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert