Donald Trump segir nú að skattar hinna ríkustu í landinu gætu hækkað yrði hann kjörinn forseti Bandaríkjanna og að hann styðji hækkun lágmarkslauna í landinu. Ummælin hafa vakið athygli en hann hefur verið á móti þessum atriðum í kosningabaráttu sinni hingað til.
Spurður um skatta í landinu sagðist Trump vera tilbúinn að semja við þingið um skattahækkanir. „Í minni skattaáætlun lækka þeir,“ sagði Trump í þættinum This Week á ABC fréttastöðinni. „En þegar það er búið að semja við þingið, hækka þeir.“
Sagðist Trump stefna að hagstæðustu lausninni í skattamálum og að hans mati þyrftu þá skattar hinna ríku í landinu að hækka.
Að sögn Trump er skattaáætlun hans opin fyrir breytingum og viðurkenndi að henni yrði líklega breytt töluvert af þinginu, sérstaklega af demókrötum sem myndu reyna að hækka skatta á hina ríkustu enn frekar. Trump, sem er metinn á fjóra milljarða Bandaríkjadali sagðist sjálfur vera tilbúinn að greiða hærri skatta.
Sagðist hann jafnframt vilja lækka skatta á fyrirtæki og millistéttarfólk. „Fyrirtækin í landinu borga hærri skatta en fyrirtæki í öllum öðrum löndum. Það er þess vegna sem þau fara annað,“ sagði Trump. Bætti hann við að af hinum frambjóðendunum væri hann að reyna að bjóða mestu skattalækkanirnar. „En ég veit að það verður ekkert endilega samþykkt,“ sagði Trump.
Í samtali við blaðamann CNN, Wolf Blitzer, sagðist Trump vera að skoða að hækka lágmarkslaun í landinu yrði hann kjörinn en hann hafði talað gegn því í baráttunni um útnefningu repúblikana.
Spurður um breytt viðhorf hans sagðist Trump vera að skoða málið og vera á þeirri skoðun að fólk þyrfti hærri laun. Þegar blaðamaður ítrekaði að það væri breytt viðhorf frambjóðandans viðurkenndi hann það. „Ég má skipta um skoðun. Maður þarf að vera sveigjanlegur, þar sem málið snýst um skattaáætlun þar sem þú veist að þú þarft að semja við aðra. En við munum koma með eitthvað.“
Lofaði Trump því jafnframt að hann sem forseti myndi koma fyrirtækjum aftur til Bandaríkjanna.
Í öðrum þætti á NBC ítrekaði hann skoðun sína á að lágmarkslaun ætti að hækka en sagði að tölurnar þyrftu að vera ákveðnar af ríkjum landsins, ekki ríkisstjórninni. „Ég veit ekki hvernig maður lifir á $7,25 á tímann (890 íslenskar krónur). En ég segi að ríkin sjálf þurfi að ákveða þetta,“ sagði Trump.