25% þungana lýkur með fóstureyðingu

Fjórðungi þungana lýkur með fóstureyðingu á hverju ári að sögn Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar WHO. Í nýrri skýrslu kemur fram að um 56 milljónir fóstureyðinga séu gerðar ár hvert og er sú tala hærri en áður var talið.

Kallað er eftir nýjum leiðum til þess að koma getnaðarvörnum til fólks.

Að sögn vísindamanna hækkaði talan yfir árlegar fóstureyðingar frá 50 milljónum á ári á árunum 1990 til 1994 upp í 56 milljónir á ári á árunum 2010-2014.

Fjölgunin er helst í þróunarlöndum sem má tengja við mikla fólksfjölgun og löngun fólks eftir minni fjölskyldum. Þá hefur fóstureyðingum fækkað í ríkum löndum, frá 25 niður í 14 af hverjum þúsund konum á barneignaraldri.

Rannsakendur bentu á að hlutfall fóstureyðinga var svipað í löndum þar sem þær eru leyfðar og þar sem þær eru það ekki. Halda þeir því fram að lög gegn fóstureyðingum halda ekki tölunni niðri og leiða frekar til þess að fólk sæki í ólöglegar fóstureyðingar sem geta verið óöruggar.

Bent er á að í Rómönsku Ameríku lýkur þriðjungi þungana með fóstureyðingu og er það hæsta hlutfall í heimi. Örlítil hækkun var á hlutfalli fóstureyðinga í Vestur-Evrópu og er hún tengd við fjölgun kvenna sem flytjast þangað frá Austur-Evrópu og öðrum landsvæðum.

Rannsakendur kalla eftir því að yfirvöld í hverju landi aðstoði fólk við að útvega sér getnaðarvarnir. Er bent á að það sé mun ódýrara fyrir samfélögin heldur en óvelkomnar þunganir og óöruggar fóstureyðingar.

Það gæti þó ekki verið svo einfalt því margar konur sem rætt var við í rannsókninni kusu að vera ekki á getnaðarvörnum vegna aukaverkana.

Frétt BBC.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert