Ný skoðanakönnun bendir til þess að auðkýfingurinn Donald Trump hafi sótt í sig veðrið í þremur ríkjum sem talið er að geti ráðið úrslitum í forsetakosningunum í Bandaríkjunum 8. nóvember. Ef marka má könnunina hefur Trump nánast unnið upp forskot Hillary Clinton, líklegs forsetaefnis demókrata, í tveimur lykilríkjanna, Flórída og Pennsylvaníu, og nýtur nú meira fylgis en hún í Ohio. Ekkert forsetaefni hefur verið kjörið forseti Bandaríkjanna frá árinu 1960 án þess að sigra í að minnsta kosti tveimur af þessum þremur ríkjum.
Mitch McConnell, leiðtogi repúblikana í öldungadeild þingsins, sagði könnunina benda til þess að væntanlegt forsetaefni flokksins væri líklegt til að geta veitt forsetaefni demókrata harða keppni.
Samkvæmt könnun Quinnipiac University ætla 43% skráðra kjósenda í Flórída og Pennsylvaníu að kjósa Clinton en 42% Trump ef valið stendur á milli þeirra í kosningunum í nóvember. Í Ohio sögðust 43% ætla að kjósa Trump en 39% Clinton.
Könnunin var gerð í síma frá 27. apríl til 8. maí og náði til rúmlega þúsund skráðra kjósenda í hverju ríkjanna þriggja. Vikmörkin voru þrjú prósentustig.
Í könnuninni mældist öldungadeildarþingmaðurinn Bernie Sanders með meira fylgi en Trump í öllum ríkjunum þremur. Í Flórída sögðust um 44% myndu kjósa Sanders ef svo færi að hann yrði næsta forsetaefni demókrata en 42% Trump. Í Ohio mældist fylgi Sanders 43% en Trumps 41% og í Pennsylvaníu sögðust 47% myndu kjósa Sanders en 41% Trump ef valið stæði á milli þeirra tveggja.
Til að verða forsetaefni demókrata þarf Clinton að fá a.m.k. 2.383 atkvæði á flokksþingi demókrata í sumar og talið er að hana vanti nú aðeins 144 atkvæði. Clinton var með mikið forskot á Sanders í upphafi kosningabaráttunnar en hann hefur veitt henni harðari keppni en búist var við og hefur sigrað í alls nítján ríkjum, meðal annars í Vestur-Virginíu, þar sem kosið var í fyrradag. Nú er eftir að kjósa í átta ríkjum í forkosningunum og svo gæti farið að úrslitin réðust ekki fyrr en 7. júní þegar kosið verður í Kaliforníu þar sem Clinton er spáð sigri.
Donald Trump getur hins vegar einbeitt sér að baráttunni við demókrata í forsetakosningunum eftir að hafa sigrað keppinauta sína í forkosningum repúblikana. Hann sigraði auðveldlega í tveimur ríkjum, Vestur-Virginíu og Nebraska, í fyrradag.
Flestar skoðanakannanir hafa bent til þess að Clinton sé með sjö til þrettán prósentustiga forskot á Trump í öllu landinu en ný könnun NBC-sjónvarpsins bendir til þess að munurinn sé nú aðeins fimm prósentustig.
Fjölmiðlamaðurinn Joe Scarborough, fyrrverandi fulltrúadeildarþingmaður repúblikana, telur hugsanlegt að Trump komi á óvart í forsetakosningunum í nóvember, eins og í forkosningum repúblikana. Hann segir í grein á vef The Washington Post að þegar spurt sé hvort fólk myndi kjósa Trump eða Clinton komi hann betur út en Mitt Romney gegn Barack Obama í forsetakosningunum fyrir fjórum árum. Hann bendir ennfremur á að forkosningarnar og síðustu fylgiskannanir benda til þess að kjósendur repúblikana séu að fylkja sér um Trump, þótt forystumenn flokksins hafi verið mjög tregir til að styðja hann.