Donald Trump, sem er kominn langleiðina með að tryggja sér stöðu forsetaframbjóðanda Repúblikanaflokksins, virðist hafa mildast nokkuð í garð múslima. BBC greinir frá þessu.
Í kjölfar hryðjuverkaárása í Evrópu síðustu misseri hefur Trump lagt til að múslimum verði bannað tímabundið að koma til Bandaríkjanna og fengið við því blendin viðbrögð. Í nóvember á síðasta ári varpaði hann einnig fram hugmynd sinni um að stofna gagnabanka yfir alla múslima í landinu.
Trump sagði nýlega að hann myndi gera undantekningu á tillögðu banni sínu við því að múslimar komi til Bandaríkjanna fyrir nýkjörinn borgarstjóra Lundúna, Sadiq Khan.
Khan, sem var kjörinn borgarstjóri Lundúna í síðustu viku, er múslimi og hann hefur lýst yfir áhyggjum af því að geta ekki farið til Bandaríkjanna verði Trump kjörinn. Borgarstjórinn afþakkaði hins vegar boð Trump og sagði hann fáfróðan og aðgerðir hans myndu leiða til þess að bæði Bandaríkin og Bretland yrðu óörugg ríki.
Trump hefur nú dregið aðeins úr afstöðu sinni gagnvart banninu.
„Þetta yrði tímabundið bann. Það hefur ekki verið gefið út ennþá,“ sagði Trump í samtali við blaðamenn í gær. „Þetta er einungis tillaga þangað til að við finnum út úr því hvað er nákvæmlega að gerast.“
Eftir því sem Trump hefur tryggt sér fleiri kjörmenn virðist sem hann sé tilbúinn til að endurskoða afstöðu sinna til margra málaflokka, auk banns gegn múslimum hefur hann gefið út að hann sé viljugur til að endurstoða stefnu sína í skattamálum, fóstureyðingum og aðgangi transfólks að almenningssalernum.
Sjá frétt mbl.is: „Ég má skipta um skoðun“