Stuðningsmenn fyrir borgaralaunum, eða skilyrðislausri grunnframfærslu, í Sviss settu í dag heimsmet með að útbúa stærsta plakat heims og var það staðfest af Guinness heimsmetabókinni. Á plakatinu er skrifað „hvað myndir þú gera ef tekjur þínar væru tryggðar?“ í gullstöfum á svörtum bakgrunni.
Plakatið var sett upp á Plainpalais torgi í Geneva í Sviss, en heildarstærð plakatsins er 8.115 fermetrar.
Hópurinn á bak við verkið kallar sig Borgaralaun fyrir Sviss og vill að allir fullorðnir einstaklingar fá lágmarks grunnframfærslu upp á 2500 svissneska franka, en það jafngildir um 318 þúsund íslenskum krónum á mánuði.
Kosið verður um tillöguna 5. júní, en í október söfnuðu stuðningsmenn frumvarpsins 100 þúsund undirskriftum sem kallar á þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.
Sérfræðingar segja að aðgerðin muni að öllum líkindum kalla á skattahækkun og einhverjir telja að það muni ýta undir að fólk hætti að vinna. Talsmaður Borgaralauna fyrir Sviss segir aftur á móti að með þessu sé hópurinn að segja að Sviss eigi næga peninga fyrir alla þegna landsins til að vera til.