4.000 gætu þurft að flýja

Byggingar, bílar og tré hafa brunnið til kaldra kola í …
Byggingar, bílar og tré hafa brunnið til kaldra kola í Fort McMurray. AFP

Hundruðum olíuverkamanna hefur verið skipað að yfirgefa vinnu- og bústaði sína í nágrenni kanadísku borgarinnar Fort McMurray vegna skógarelda sem fara vaxandi á ný og stefna í átt að vinnusvæðinu.

BBC vitnar í Rachel Notley, fylkisstjóra Alberta, sem segir allt að því 600 verkamenn hafa verið senda á borpalla norðar í landinu.

4.000 verkamenn eru í viðbragðsstöðu, reynist frekari rýmingar nauðsynlegar.

Yfir 80 þúsund manns flýðu Fort McMurray fyrir tveimur vikum þegar skógareldur læsti klóm sínum í borgina. Eldhafið færðist frá bænum en á síðustu dögum hefur það tekið að ógna svæðinu að nýju. Á mánudaginn fór eldurinn um á 30 til 40 m/mínútu hraða norðan við borgina.

12 olíuvinnslustöðvar eru á svæðinu. Þykkur reykur og aska yfir stóru svæði valda slökkvistarfi vandræðum og heitir, þurrir vindar auka enn á eldinn. Auk eldhafsins norðan við berjast slökkviliðsmenn við eld suðaustur af Fort McMurray sem ógnar olíuvinnslustöð.

Fjármálaráðherra Kanada, Bill Morneay, segir enn verið að meta kostnað vegna hörmunganna.

„Við munum augljóslega standa þétt við hlið íbúa Fort McMurray og byggja borgina upp að nýju,“ sagði hann. Yfir 2.400 byggingar í borginni hafa verið gjöreyðilagðar og þúsundir íbúa hafast við í tímabundnum skýlum.

Vonast er til að innan tveggja vikna verði tilbúin áætlun um hvernig eigi að koma íbúum aftur á heimili sín.

Eldhafið nær enn yfir um 2.410 ferkílómetra svæði og er gert ráð fyrir að eldur muni loga áfram í nokkrar vikur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert