Lögregla í Bretlandi rannsakar nú mannshöfuð sem fannst í grjótnámu í Cambridgeshire í gær. Starfsmaður námunnar fann höfuðið og hélt hann fyrst að um væri að ræða gínu. „En svo sá hann augabrúnirnar og hárið og fattaði að þetta væri kvenhöfuð,“ sagði samstarfsfélagi mannsins sem fann höfuðið í samtali við fjölmiðla.
Sagði hann jafnframt að höfuðið hefði verið þakið blóði og drullu en virtist ekki vera byrjað að molna. Er höfuðið af konu á þrítugs eða fertugsaldri.
Lögregla hefur þó ekki staðfest að um kvenhöfuð hafi verið að ræða eða hversu lengi það hafi verið í námunni. Var þó hægt að segja að mannshöfuð hafi fundist, ekki hausskúpa.
Er nú verið að rannsaka hvort að mögulegt sé að líkamsleifarnar komi frá Bedfordshire og tengist þar sérstöku sakamáli.