Lagafrumvarp sem leyfir fjölskyldum fórnarlamba árásanna 11. september 2001 að stefna Sádi-Arabískum stjórnvöldum hefur verið samþykkt í bandaríska öldungadeildarþinginu og verður það næst tekið til umræðu í fulltrúadeildarþinginu.
Utanríkisráðherra Sádi-Arabíu varaði við því á dögunum að verði frumvarpið samþykkt gæti það leitt til þess að stjórnvöld þar í landi dragi sig úr bandarískum fjárfestingum. Þá hefur Barack Obama forseti Bandaríkjanna sagst ætla að beita neitunarvaldi sínu gegn frumvarpinu.
Ef frumvarpið er samþykkt geta fjölskyldur fórnarlambanna stefnt hverjum þeim stjórnarliða Sádi-Arabíu sem talinn er hafa spilað einhverskonar hlutverk í aðdraganda árásanna. Sádi-Arabar hafa alltaf neitað aðild að árásunum þar sem tæplega 3.000 létu lífið. Fimmtán af þeim nítján mönnum sem rændu flugvélarnar sem notaðar voru í árásunum voru frá Sádi-Arabíu.
Þremur árum eftir árásirnar gaf sérstök rannsóknarnefnd út skýrslu þar sem fram kom að engar sannanir væru fyrir því að stjórnvöld í Sádi-Arabíu eða stjórnarliðar hefðu styrkt árásirnar með peningum.
Talsmaður Hvíta hússins sagði að Obama hefði miklar áhyggjur af frumvarpinu og að hann ætti erfitt með að sjá hann fyrir sér skrifa undir það.
Fyrsti flutningsmaður frumvarpsins voru þeir Chuck Chumer, þingmaður demókrata í New York og John Cornyn, þingmaður demókrata í Texas. Talið er líklegt að fulltrúadeildarþingið samþykki frumvarpið einnig.