Trump ætlar að endursemja um loftslagsmál

Kjör Donalds Trump sem forseta Bandaríkjanna gæti teflt loftslagi jarðar …
Kjör Donalds Trump sem forseta Bandaríkjanna gæti teflt loftslagi jarðar í tvísýnu. AFP

Parísarsamkomulagið í loftslagsmálum verður í uppnámi nái Donald Trump kjöri sem forseti Bandaríkjanna. Væntanlegur frambjóðandi Repúblikanaflokksins segist ætla að semja upp á nýtt um hlut Bandaríkjanna eða „gera eitthvað annað“. Trump segir samkomulagið slæmt fyrir Bandaríkin.

Í viðtali við Reuters-fréttastofuna segist Trump ekki trúa því að Kínverjar, stærstu losendur koltvísýrings sem veldur loftslagsbreytingum á jörðinni, muni standa við fyrirheit sín um að draga úr losun. Því sé hann ekki aðdáandi samkomulagsins í París sem margir telja úrslitatilraun til að forðast afdrifaríkustu afleiðingar hnattrænnar hlýnunar.

„Ég mun skoða þetta mjög, mjög alvarlega og að minnsta kosti mun ég semja upp á nýtt um þetta samkomulag, að minnsta kosti, og í mesta lagi gæti ég gert eitthvað annað,“ segir Trump í viðtalinu.

Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, hefur skuldbundið Bandaríkin til þess að draga úr losun sinni á gróðurhúsalofttegundum um 26-28% fyrir árið 2025 miðað við árið 2005.

Trump hefur líkt og aðrir repúblikanar lengi afneitað vísindum þegar kemur að loftslagsmálum. Hann hefur meðal annars lýst því yfir að hann telji hnattræna hlýnun hugtak sem Kínverjar hafi fundið upp til að skaða samkeppnisfærni Bandaríkjanna.

Lorent Fabius, fyrrverandi utanríkisráðherra Frakklands sem tók þátt í að koma Parísarsamkomulaginu á, varaði við því fyrr í þessum mánuði að forsetakosningarnar í Bandaríkjunum gætu ráðið úrslitum um framtíð loftslagsaðgerða.

„Ef loftslagsbreytingaafneitari verður kjörinn þá gæti það ógnað verulega alþjóðlegum aðgerðum gegn röskunum af völdum loftslagsins,“ sagði Fabius.

Kvartaði undan banni við hárspreyi

Loftslagsmál eru heldur ekki eina málefnið þar sem Trump talar þvert gegn vísindalegri þekkingu. Á kosningafundi með námuverkamönnum í Vestur-Virginíu fyrr í þessum mánuði kvartaði Trump undan því að hann mætti ekki nota hársprey vegna áhrifa þess á ósonlagið. Frambjóðandanum þótti afar ósennilegt að spreyið sem væri notað inni í lokaðri íbúð gæti haft þau áhrif.

„Ég segi: engin leið, gott fólk, engin leið,“ sagði Trump við stuðningsmenn sína.

Losun á efnum sem skaða ósonlagið, sem voru meðal annars að finna í sumum hárspreyjum, var takmörkuð mjög með Montreal-sáttmálanum árið 1987 eftir að þjóðir heims gerðu sér grein fyrir hættunni. Styrkur efnanna í lofthjúpnum er smátt og smátt að dvína og er gert ráð fyrir að ósonlagið verði aftur komið í það horf sem það var í árið 1980 í kringum árið 2070.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert