Bill Clinton leiti sér hjálpar

Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti.
Bill Clinton, fyrrum Bandaríkjaforseti. AFP

Ummæli Bills Clinton, fyrrverandi forseta Bandaríkjanna, um að Pólverjar og Ungverjar hafi horfið af braut frelsisins og kosið yfir sig stjórnlynda leiðtoga í anda Donalds Trump og Vladímirs Pútin hefur vakið mikla reiði í ríkjunum tveimur. Ráðmenn í ríkjunum hafa gagnrýnt ummælin harðlega og sagði einn þeirra, Jaroslaw Kaczynski, leiðtogi stærsta stjórnarflokksins í Póllandi, að Clinton ætti að leita sér læknishjálpar.

„Allir sem halda því fram að lýðræði sé ekki í Póllandi þurfa að leita sér læknishjálpar,“ sagði Kaczynski við fréttamenn í Varsjá, höfuðborg Póllands, í gærkvöldi.

Bill Clinton lét ummælin umdeildu falla á kosningafundi eiginkonu sinnar, Hillary, í seinustu viku. Hann sagði að Pólverjar og Ungverjar mættu þakka Bandaríkjunum fyrir það frelsi sem þeir hafa búið við. Nú vilji þeir hins vegar hafna lýðræðinu og kjósa yfir sig leiðtoga í anda Pútín og Trump.

Peter Szijjarto, utanríkisráðherra Ungverjalands, gagnrýndi einnig ummælin. „Bill Clinton veit vel að Ungverjar ákveða framtíð Ungverjalands í lýðræðislegum þingkosningum,“ sagði hann. „Kannski kann hann ekki vel við ákvörðun Ungverja, en það er ekki nægileg ástæða fyrir fyrrum Bandaríkjaforseta til þess að móðga þá.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert