Ráðast í gríðarmikið veituverkefni

Ljóst þykir að verkefnið, sem miðar að því að koma …
Ljóst þykir að verkefnið, sem miðar að því að koma í veg fyrir vatnsskort á Indlandi, mun hafa áhrif út fyrir landsteinana þar sem árnar virða ekki landamæri. AFP

Stjórnvöld á Indlandi hyggjast ráðast í 20-30 ára verkefni sem miðar að því að veita vatni frá norður- og vesturhluta landsins til þurrari svæða í austur- og suðurhlutanum. Verkefnið felur í sér að veita vatni úr ám á borð við Ganges og Brahmaputra, og byggja skurði til að tengja árnar Ken og Batwa, og Damanganga-Pinjal í vesturhluta Indlands.

Umhverfisverndarsinnar segja að framkvæmdirnar gætu mögulega haft hörmulegar afleiðingar í för með sér fyrir vistkerfi á svæðinu. Fjárhagslegur kostnaður þeirra er áætlaður 207 milljarðar punda.

Ríkisstjórn forsætisráðherrans Narendra Modi hefur kynnt verkefnið sem lausn á landlægum vatnsskort en árum saman hafa ákveðin landsvæði orðið illa úti vegna þurrka. Meðalhiti hefur farið hækkandi og þá hefur fólksfjölgun aukið eftirspurnina eftir vatni. Milljónir eru taldir án áreiðanlegrar vatnsuppsprettu.

Samkvæmt frétt Guardian er um að ræða nokkurs konar gæluverkefni Modi, sem á fyrstu mánuðunum í embætti endurvakti hugmynd um að tengja 30 ár víða um Indland. Sérfræðingar og aðgerðasinnar hafa hins vegar gagnrýnt verkefnið en Dr. Latha Anantha, við River Research Center, segir fyrirætlun stjórnvalda að endurskipuleggja landið.

„Hvað verður um samfélögin, dýralífið, bændurna sem búa við árnar? Þau þurfa að horfa á ána ekki bara sem uppsprettu vatns, heldur heilt vistkerfi,“ segir Anantha um stjórnvöld. „Þau munu þurfa að grafa skurði alls staðar og ögra vistkerfi landsins. Þetta er peningasóun og þau hafa ofmetið vatnsmagnið í ánum sem þau vilja veita annað.“

Verkefnið hefur einnig vakið harkaleg viðbrögð í Bangladesh, en það er talið munu hafa áhrif á 100 milljónir íbúa þar í landi, sem búa við Ganges og Brahmaputra og hafa lifibrauð af ánum.

Ítarlega frétt um málið er að finna hjá Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert