Alexander Richard Shirreff, fyrrverandi aðstoðar-yfirmaður herafla Atlantshafsbandalagsins, segir stríð yfirvofandi milli Vestuveldanna og Rússlands að óbreyttu. Hann spáir því að Rússar ráðist inn í austurhluta Úkraínu og í framhaldinu inn í Eystrasaltsríkin, til að bregðast við auknum umsvifum NATO.
Þetta kemur fram í nýrri bók, 2017 War With Russia, þar sem Shirreff segir m.a. að innlimum Krímskaga hafi gert út um sáttina í kjölfar Kalda stríðsins og lagt grunninn að átökum sem gætu brotist út strax á næsta ári.
Í frétt Guardian segir að Shirreff, sem er fyrrverandi hershöfðingi í breska hernum, sé með yfirlýsingu sinni að leggja orðstír sinn að veði, en hann segist byggja spádóm sinn á reynslu sinni hjá NATO, þar sem hann kortlagði framtíðarátök.
Shirreff varar við því að notkun kjarnavopna séu hluti af hernaðaráætlun Rússa og segir Rússland hættulegasta andstæðing Vestursins. Vladimir Pútín Rússlandsforseti verði aðeins stöðvaður ef Vesturveldin vakna úr dvala og grípa til aðgerða.
Þá segir Shirreff að dregið hafi úr þekkingu, getu og hergögnum Atlantshafsbandalagsins, á meðan Rússar hafi verið að gefa í.