Veita umdeild olíuvinnsluleyfi

Frá einum af olíuborstöðum norska olíufélagsins Statoil.
Frá einum af olíuborstöðum norska olíufélagsins Statoil. ljósmynd/Harald Pettersen/Statoil

Umhverfisverndarsamtök fordæma norsk stjórnvöld en þau veittu í dag borunarleyfi til olíuvinnslufyrirtækja á nýjum svæðum á norðurskautinu í fyrsta skipti í rúm tuttugu ár. Þar á meðal eru svæði í Barentshafi þar sem olíuleit hefur ekki farið fram áður.

Þrettán olíufyrirtæki fengu úthlutað leyfum í dag, þar á meðal ríkisolíufyrirtækið Statoil. Olíuframleiðsla Norðmanna hefur dregist saman um helming frá árinu 2000 og verðfall á hráolíu hefur dregið verulega úr tekjum ríkisins.

Tord Lien, olíu- og orkumálaráðherra Noregs, sagði að leyfisveitingarnar muni stuðla að sköpun starfa, hagvaxtar og virðisauka í landinu. Ákvörðunin hefur hins vegar vakið litla hrifningu umhverfisverndarsamtaka.

„Við getum ekki tekið áhættuna á öðrum Deepwater Horizon [olíuleka] í Barentshafi,“ sagði Truls Gulowsen, forstöðumaður Grænfriðunga í Noregi sem vísaði til gróskumikils en viðkvæms lífríkis í hafinu.

Bandarísk stjórnvöld áætla að um 185 milljónir lítrar af olíu hafi farið út í Mexíkóflóa eftir sprenginguna sem varð á Deepwater Horizon-olíuborpalli BP árið 2010. Lekinn er talinn eitt versta umhverfisslys sögunnar.

Þá benti Gulowsen á að leiðtogar ríkja heims hafi skuldbundið sig til að reyna að halda hlýnun jarðar við 1,5°C miðað við fyrir iðnbyltingu með Parísarsamkomulaginu sem gert var í desember.

„Ef við viljum ná því markmiði getum við ekki farið að leita að olíu og jarðgasi á norðurskautinu,“ segir hann.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert