Justin Trudeau forsætisráðherra Kanada baðst í dag afsökunar á að hafa sett olnbogann í bringuna á öðrum þingmanni í heitum umræðum á kanadíska þinginu í gær.
Upptaka af þinginu sýnir hvernig Trudeau gengur þvert yfir gólfið í þingsalnum og grípur í stjórnarandstöðuþingmanninn Gord Brown og dregur hann í burtu. Gerði hann það til þess að atkvæðagreiðsla gæti hafist í þingmálinu sem til umræðu var.
Kanadíski fjölmiðillinn CBC segir að forsætisráðherrann hafi endurtekið sagt þingmönnum að „drulla sér í burtu“ (e. „get the fuck away“) á leið sinni til Browns. Þegar hann greip í hendi Browns ýtti hann í leiðinni Ruth Helen Brusseau með olnboganum.
Í afsökunarbeiðninni sagðist hann ekki hafa séð Brusseau. „Ég viðurkenni að ég komst í snertingu við nokkra þingmenn, meðal annars einn þingmann sem stóð fyrir aftan mig og ég sá ekki. Ef einhverjum líður eins og ég hafi gert á þeirra hlut, þá biðst ég afsökunar á því. Það var ekki ætlunin að særa neinn,“ sagði Trudeau í afsökunarbeiðni sinni.
Þingmenn í salnum brugðust illa við uppátæki Trudeaus og leystist þingfundurinn upp í hróp og köll. Tom Mulcair leiðtogi stjórnarandstöðunnar kallaði: „Hvers konar maður olnbogar konu? Þetta er aumkunarvert. Þú ert aumkunarverður.“
Brosseau var ekki ánægð með snertingu Trudeaus. Hún segist hafa verið að ræða við samstarfsmenn sína þegar Trudeau kom og olnbogaði hana í bringuna. „Ég þurfti að yfirgefa þingsalinn. Mér var svo brugðið við þetta að ég yfirgaf þingsalinn og þurfti að setjast aðeins niður. Ég missti af atkvæðagreiðslunni vegna þessa,“ segir Brosseau.
Heitar umræður hafa verið á kanadíska þinginu í vikunni. Til umræðu hefur verið frumvarp ríkisstjórnarinnar um líknardráp.
Í frétt The Guardian má sjá myndband af atvikinu.