Hillary Clinton segir andstæðing sinn Donald Trump bæði hættulegan og ótraustvekjandi ásamt því að hann valdi sundrung í samfélaginu. Í viðtali við CNN í dag sagði Clinton að hegðun Trump síðustu daga sýndi að hann væri ekki hæfur til þess að vera forseti Bandaríkjanna.
Ummæli Clinton eru talin þau grófustu gegn Trump hingað til. Nefndi hún árásir hans gegn breskum stjórnmálamönnum, vilja til þess að ræða við Kim Jong Un, og skoðun hans að fleiri þjóðir ættu að eiga kjarnorkuvopn máli sínu til stuðnings og sagði þessi atriði „gefa upp mjög ófríða mynd.“
„Ég veit hversu erfitt þetta starf er og ég veit að við þurfum stöðugleika, en á sama tíma styrk og gáfur, og mín niðurstaða er sú að hann er ekki hæfur til þess að vera forseti Bandaríkjanna,“ sagði Clinton.
Hún gagnrýndi sérstaklega áætlanir Trump um að banna múslimum að koma til Bandaríkjanna. Sagði hún hugmyndina „ögrandi“ og að hún fæli í sér skilaboð vanvirðingar til þeirra múslímaþjóða sem eru bandamenn Bandaríkjanna.
„Þegar þú býður þig fram sem forseta Bandaríkjanna er allur heimurinn að hlusta og horfa,“ sagði Clinton. „Þannig að þegar þú segist ætla að banna alla Múslíma sendirðu út þær sannanir og skilaboð til hryðjuverkamanna.“ Sagði hún að Trump væri notaður af hryðjuverkamönnum til þess að fá fleiri til þess að ganga til liðs við þá.
Þá sagðist hún ekki ætla að svara árásum Trump gegn henni og eiginmanni hennar en Trump sagði Clinton „heimila“ hjúskaparbrot Bill Clinton og „meðferð hans á konum“.
„Ég veit eftir hverju hann er að fiska og ég ætla ekki að svara,“ sagði Clinton.
Aðspurð um andstæðing sinn í demókrataflokknum, Bernie Sanders, sagði Clinton það ljóst að hún myndi hljóta útnefningu flokksins. Sagðist hún vera með „óyfirstíganlegan“ fjölda ofurkjörmanna og sé með milljónum fleiri atkvæði á heildina en Sanders.
„Ég hlýt útnefningu míns flokks,“ sagði Clinton. „Það er þegar vitað. Það er engin leið að ég verði það ekki.“
Hún vildi ekki tjá sig um hvort að Sanders verði mögulega varaforsetaefni hennar en sagði hann þurfa að „gera sitt“ til þess að sameina flokkinn fyrir forsetakosningarnar í nóvember.