Kallað er eftir árásum gegn Bandaríkjunum og Evrópu í skilaboðum sem sögð eru koma frá talsmanni hryðjuverkasamtakanna Ríkis íslams í dag. Eru liðsmenn samtakanna hvattir til þess að fremja árásir í heilagasta mánuði múslíma, Ramadan, sem hefst í byrjun júní.
„Ramadan er mánuður sigra og jihad (heilags stríðs). Undirbúið ykkur, verið tilbúnir að skapa mánuð ógæfu alls staðar fyrir þá sem ekki trúa ekki, sérstaklega stuðningsmenn kalífadæmisins í Evrópu og Bandaríkjunum,“ sagði í skilaboðunum.
Upptökunni var dreift á Twitter í dag frá aðgöngum sem yfirleitt birta tilkynningar frá samtökunum. Ekki hefur þó fengist staðfest að sá sem talar sé Abu Muhammad al-Adnani, talsmaður samtakanna, en því er haldið fram á Twitter.
Samtökin hafa lýst yfir ábyrgð á árásum síðasta árið í Bandaríkjunum, Frakklandi og Belgíu. Í skilaboðunum í dag var hvergi minnst á farþegaþotu EgyptAir sem hrapaði í Miðjarðarhafið aðfaranótt fimmtudags en egypskir, bandarískir og franskir embættismenn hafa sagt það líklegt að vélinni hafi verið grandað af hryðjuverkamönnum. Enn á þó eftir að finna flugrita vélarinnar og er vonast til að upptökur þaðan geti skýrt hvað gerðist.